Mánuður: ágúst 2013

GSS í 7. sæti í Sveitakeppni GSÍ 18 ára og yngri drengja

Keppendur GSS í Sveitakeppni 18 ára og yngri ásamt þjálfara sínum

Golfklúbbur Sauðárkróks sendi sveit til keppni í Sveitakeppni GSÍ 18 ára og yngri sem var haldin á Strandavelli við Hellu að þessu sinni dagana 23.-25.ágúst. 13 lið voru skráð til keppni að þessu sinni. Þeir sem skipuðu sveitina voru þeir Arnar Geir Hjartarson, Atli Freyr Rafnsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hlynur Freyr Einarsson, Jónas Már Kristjánsson og Pálmi Þórsson.  Með í för voru að sjálfsögðu þjálfarinn Mark Irving og fararstjórarnir voru þeir Rafn Ingi Rafnsson, Kristján Jónasson og Hjörtur Geirmundsson.

Lagt var að stað frá Sauðárkróki í bítið fimmtudaginn 22.ágúst og stefnt á Suðurlandið þar sem bókaður var æfingahringur hjá hópnum upp úr hádegi þann daginn. Svo veðurlýsingu sé haldið til haga þessa dagana þá fór lognið frekar hratt yfir á æfingahringnum en völlurinn í flottu standi og allir virkilega spenntir fyrir átök næstu daga. Gist var var Heklurætur í svona hálftíma fjarlægð frá vellinum. Á föstudeginum var sterkur vindur á helmingi hringsins og byrjaði ekki að rigna fyrr en í lok hringsins. Laugardagur og sunnudagur voru hins vegar mjög blautir og það stytti ekki upp fyrr en kl 15 á sunnudeginum og náðum við því tveimur tímum þurrum í lok mótsins. Töluverður vindur var hins vegar allan tímann.

Keppnin hófst svo á föstudagsmorguninn með því að spilaður var 18 holu höggleikur sem kæmi til með að ráða niðurröðun sveita í riðla. Í hverri umferð spiluðu 4 leikmenn og 2 hvíldu.  Í höggleiknum gilda þær reglur að 3 bestu skorin gilda til röðunar í riðla.  Arnar Geir spilaði á 74 höggum, Elvar Ingi á 75 höggum og Atli Freyr og Hlynur voru báðir á 84 höggum.  Þetta skilaði sér í 6. sætið og B riðil sem er mjög góður árangur og allir sáttir með þessa niðurstöðu. Við vorum hins vegar í riðli með mjög sterkum liðum sem er auðvitað bara mjög spennandi að spila við góða kylfinga.

Í fyrstu umferðinni í holukeppninni mættum við sterku liði GKG ( Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar ) og þar var við ofurefli að etja.  Hlynur og Jónas spiluðu alveg ágætlega en töpuðu í fjórmenningi á móti Aroni Snæ og Óðni Þór 5/4. Elvar Ingi náði sér ekki á strik og tapaði 7/6 fyrir Kristórfer Orra og Arnar gær tapaði fyrir Ragnari Má 3/2 þrátt fyrir að vera á parinu eftir 16 holur !

Í seinni umferð laugardagsins var leikið við annað mjög sterkt lið – GR (Golfklúbb Reykjavíkur).  Jónas Már og Pálmi léku fjórmenningin á móti Árna Frey og Boga Ísak. Áttu þeir ágæta spretti en töpuðu að lokum 6/5. Atli Freyr lék á móti Stefáni Þór og spilaði ágætlega framan af leik en tapaði að lokum 5/4. Arnar Geir lék á móti Kristni Rey og þar var um hörkuviðureign að ræða allan tímann þar sem báðir voru á parinu eftir 18 holur. Arnar Geir náði að sigra síðustu og holuna og tryggja sér bráðabana sem hann sigraði síðan á 1.holu bráðbanans með því að fá fugl.

Í fyrri umferð sunnudagsins var leikið við lið GKJ ( Kjölur í Mosfellsbæ ). Fjórmenninginn að þessu sinni spiluðu Atli Freyr og Hlynur við Elís Rúnar og Daníel Andra. Þeir spiluðu fínan leik framan af en urðu að játa sig sigraða 4/3 að lokum. Elvar Ingi lék í tvímenningi við Björn Óskar sem sigraði 3/2. Í báðum þessum leikjum voru góðir möguleikar en þetta datt bara ekki okkar megin.  En lokaleikurinn var á milli Arnars Geirs og Guðna Vals. Það var alveg hörkuviðureign og gott golf spilað. Þegar 3 holur voru eftir af þeim leik þá var Arnar Geir 3 holur niður og útlitið ekki gott og því nánast formsatriði að fyrir Guðna Val að klára þennan leik. Arnar Geir var ekki alveg á því og setti í gírinn á næstu holum. Með fugli á 16 holu, pari á 17 holu og aftur fugli á 18 holu jafnaði hann leikinn með frábærri spilamennsku og því var hann kominn öðru sinni í bráðabana í keppninni. Fyrsta holan í bráðabananum féll á pari en á annarri holu sem er 140 metra löng setti Arnar Geir rúman meter frá stöng og tryggði sér fugl og þar með sigur í þessum ótrúlega leik. Sannarlega eftirminnileg endurkoma.

Seinni leikurinn á sunnudeginum og jafnframt lokaleikur okkar manna var leikur um 7.-8. sætið í keppninni. Þar var leikið við sameiginlegt lið GL og GB ( Leynir Akranesi og Golfklúbbur Borgarness ).  Í fjórmenningnum þar léku þeir Elvar Ingi og Hlynur Freyr við Friðrik Berg og Arnór Tuma. Það var mjög skemmtilegur leikur þar sem okkar menn náðu snemma frumkvæði en misstu svo aðeins dampinni um miðbik leiksins og hleyptu GL/GB aftur inn í leikinn. Þeir settu síðan aftur í fluggír og kláruðu leikinn á 17 holu 2/1. Í tvímenningnum lék Atli Freyr á móti Þorkeli Má. Atli náði snemma frumkvæðinu í leiknum og lét hana aldrei af hendi enda mjög einbeittur að klára þennan leik. Landaði hann nokkuð öruggum sigri á 16 holu 3/2. Seinni tvímenninginn spilaði Arnar Geir við Sindra Snæ og enn og aftur var um spennuleik að ræða. Arnar Geir lenti snemma undir í leiknum en náði að jafna hann á 17 holu. Sindri náði pari á 18. holu en Arnar Geir lék hana á einu yfir pari. Sem þýddi að GSS fékk 2 vinninga á móti 1 GL/GB og GSS endaði því í 7. sæti í mótinu.

Strákarnir stóðu sig allir með mikilli prýði og voru klúbbnum til mikils sóma bæði innan vallar sem utan og það var virkilega gaman að vera með þeim þessa dagana.

Hægt er að nálgast öll úrslit í þessari sveitakeppni á vef Golfsambands Íslands http://www.golf.is

Áfram GSS

Hjörtur Geirmundsson, liðsstjóri.

 

 

 

Categories: Óflokkað

Golfkennsla

Golfkennsla hjá Mark Irwing
Síðasti séns

Video kennsla með upptöku sem þú átt og getur notað við æfingar í vetur.

Frá mánudag 26.8. to  laugardags 31.8.

45. min. 5000,-

Bókanir hjá Mark í síma 6617827

Categories: Óflokkað

Sveitakeppni pilta 18 ára og yngri

Golfklúbbur Sauðárkróks sendir lið í sveitakeppni pilta 18 ára og yngri sem haldin verður á Hellu 23-25 ágúst n.k.

Liðið sem hefur verið valið skipa þeir:

Arnar Geir Hjartarson

Atli Freyr Rafnsson

Elvar Ingi Hjartarson

Hlynur Freyr Einarsson

Jónas Már Kristjánsson

Pálmi Þórsson

Á föstudaginn verður leikinn 18 holu höggleikur sem ræður niðurröðun í riðla. Eftir það verður spiluð holukeppni – tvöföld umferð bæði laugardag og sunnudag.

Hægt verður að fylgjast með framvindu keppninngar á www.golf.is alla keppnisdagana.

Categories: Óflokkað