Nýliðanámskeið hefst 3 júni

Mark Irving

Golfkennarinn Mark Irving býður upp á nýliðanámskeið í sumar. Kennt verður í hópum 6 manns í einu. Fyrsta námskeiðið hefst mánudaginn 3. júní kl. 18:00. Á námskeiðinu verður farið yfir helstu atriði varðandi golfíþróttina og er upplagt fyrir nýliða að hefja sumarið á námskeiði sem þessu.

Áætlað er að hverju námskeiði ljúki á viku og nemendur hittist 3-4 sinnum á þeim tíma. Heildar kennslutími eru 3-4 klukkustundir. Námskeiðið kostar 8000 krónur pr einstakling.

Hægt er að panta pláss á námskeiðinu í netfanginu unnar.ingvarsson@gmail.com eða í síma 892 6640.

Einnig verður hægt að panta einkatíma hjá golfkennaranum. Verð fyrir eina kennslustund er 3000 krónur en hægt er að kaupa pakka. Þá býður kennarinn einnig upp á vídeókennslu sem er 75 mínútur og kostar 8000 krónur á mann.

Félagsmenn GSS sem aðrir sem áhuga hafa á að bæta golfsveifluna eru hvattir til að nýta sér þjónustu þessa reynda þjálfara.

Categories: Óflokkað

Völlurinn opnar á fimmtudaginn

Á Hlíðarenda 27. maí 2013

Á fimmtudaginn 30. maí, verður Hlíðarendavöllur opnaður inn á sumarflatir. Þrátt fyrir ýmsar skemmdir á flötum og á brautum er óhætt að spila völlinn og er hann þrátt fyrir allt í þokkalegu standi.

Búið er að sá í og sanda flatir og eru kylfingar sérstaklega beðnir um að ganga vel um, lagfæra kylfu- og boltaför. Bleyta er á sumum brautum og eru kylfingar jafnframt beðnir um að velja heppilega gönguleið framhjá bleytunni.

Góða skemmtun og gleðilegt sumar.

Categories: Óflokkað

Allt að gerast á golfvellinum

Nú fer að styttast í opnun golfvallarins inn á sumarflatir. Opnunarmóti GSS sem fyrirhugað var 1. júní hefur verið aflýst og verður fyrsta mótið því miðvikudagsmót 5. júní.

Hlýindin og vætan hafa gert góða hluti undanfarið og vallarstarfsmenn eru á fullu við að lagfæra skemmdir sem eru í mörgum flötum. Leyniblanda vallarstjóra og Reynis Barðdal hefur verið sett á flatrinar og nú stendur yfir sáning og söndun.

Athygli er vakin á því að völlurinn er opinn fyrir félagsmenn, en ekki er spilað af teigum og inn á flatir í augnablikinu. Kylfingar eru beðnir um að passa sérstaklega vel upp á völlinn, færa úr bleytu og lagfæra kylfuför. Þá eru kylfingar beðnir að fara ekki með þungar golfkerrur inn á völlinn og taka tillit til starfsmanna.

Categories: Óflokkað