Almennar golfreglur

Ágrip úr helstu golfreglum:

Þannig samþykktar af R&A Rules Limited

Hér fer á eftir ágrip Golfreglnanna, einfaldað þar sem það er unnt. Til frekari upplýsinga vísast til Golfreglubókarinnar

GOLFSIÐIR

Leikmenn ættu alltaf að sýna öðrum sem eru að leik á vellinum tillitssemi. Þótt atriðin hér á eftir séu ekki reglur sem slíkar eru þau mikilvægur þáttur leiksins.

• Leiktu ekki fyrr en þeir sem á undan fara eru úr hættu.

• Kallaðu til aðvörunar ef boltinn þinn gæti hitt einhvern.

• Hreyfðu þig ekki, talaðu eða stattu nálægt leikmanni þegar hann slær.

• Stígðu ekki á púttlínu annarra.

• Leiktu alltaf án tafar og fylgdu vel eftir leikhópnum á undan.

• Bjóddu þeim sem leika hraðar að fara framúr.

• Láttu upprifna torfusnepla aftur í farið og gerðu við för eftir bolta.

• Sléttaðu spor í glompum.

• Láttu ekki kylfur detta á flötina og styddu þig ekki við púttarann.

• Láttu flaggstöngina varlega aftur á sinn stað.

• Sé um alvarlegt brot á siðareglum að ræða hefur nefndin vald til að beita leikmann frávísun.

SKILGREININGAR

Góð þekking á hinum skilgreindu hugtökum mun gagnast við að beita reglunum rétt. Meðal þeirra eru:

Teigur – byrjunarreitur fyrir holuna, afmarkaður með tveimur teigmerkjum.

Á leið – allur golfvöllurinn nema teigurinn og flötin fyrir holuna sem verið er að leika, og allar

torfærur.

Torfærur – sérhver glompa eða vatnstorfæra.

Flöt – svæði sem sérstaklega er gert til að pútta á.

Út af – handan vallarmarka golfvallarins eða sérhver hluti vallarins sem stjórnendur hans hafa látið merkja sem út af. Bolti er út af sé hann allur utan markanna.

Lausung – hlutir úr náttúrunni svo sem steinar, lauf og greinar að því tilskildu að þeir séu ekki fastir eða grónir niður, séu ekki niðurgrafnir svo neinu nemi eða loði við boltann, (dögg og hrím eru ekki lausung).

Hindranir – allir hlutir gerðir af mönnum, nema:

• hlutir sem marka hvað sé út af;

• sérhver sá hluti óhreyfanlegs mannvirkis sem er út af; og

• sérhvert mannvirki sem stjórnendur vallarins lýsa hluta vallar í staðarreglum.

Aðkomuvatn – allt tímabundið samansafnað vatn á vellinum sem er sjáanlegt áður en, eða eftir að leikmaður tekur sér stöðu (dögg og hrím eru ekki aðkomuvatn).

Grund í aðgerð – sérhver hluti vallarins sem ráðamenn hans hafa merkt þannig. Nær einnig til efnis sem hlaðið hefur verið eða hrúgað upp til brottflutnings og holu gerðrar af vallarverði, jafnvel þótt ómerkt sé.

Grafdýr – dýr sem gerir sér holu til að búa í eða til skjóls ( t.d. kanínur, mýs o.s.frv.).

Næsti staður fyrir lausn – viðmiðunarpunktur þegar tekin er vítalaus lausn vegna truflunar frá óhreyfanlegri hindrun, aðkomuvatni, grund í aðgerð, holu eftir grafdýr o.s.frv., eða rangri flöt

Það er næsti staður sem er ekki nær holu hvaðan, lægi boltinn þar, væri ekki um truflun vegna þessara aðstæðna að ræða fyrir höggið sem leikmaðurinn hefði greitt frá hinni upphaflegu legu.

LEIKREGLUR

ALMENN ATRIÐI

Áður en þú hefur leik:

• Lestu staðarreglurnar á skorkortinu eða upplýsingatöflunni.

• Auðkenndu boltann þinn. Margir kylfingar nota sömu boltategundir og getir þú ekki þekkt bolta sem þinn telst hann týndur.

• Teldu kylfurnar þínar. Þér leyfast ekki fleiri en 14.

Á meðan á leik stendur máttu engan biðja um “ráðleggingu” nema samherja þinn eða kylfubera.

Ráðlegðu engum nema samherja þínum.

Þú mátt ekki slá æfingahögg á meðan leikið er að holu.

TEIGHÖGG

Sláðu teighöggið af stað á milli teigmerkjanna en ekki fyrir framan þau. Þú mátt slá höggið af stað allt að tveimur kylfulengdum aftan við framlínu teigmerkjanna.

Sé teighöggið slegið utan þessa svæðis – í holukeppni er það vítalaust en mótherjinn má krefjast þess að þú endurtakir höggið; í höggleik hlýtur þú tvö vítahögg og verður síðan að leika innan hins rétta svæðis.

BOLTANUM LEIKIÐ

Leiktu boltanum eins og hann liggur. Bættu ekki legu, fyrirhugaða stöðu eða sveiflusvið, eða leiklínu, með því að hreyfa, beygja eða brjóta neitt sem er fast eða gróið nema við að taka þér stöðu á eðlilegan hátt og sveifla kylfunni.

Þrýstu hvorki neinu niður né byggðu þér undirstöðu.

Liggi boltinn í glompu eða vatnstorfæru skaltu ekki snerta jörð í hvorri tegund torfærunnar sem er, eða vatn í vatnstorfærunni, fyrr en í framsveiflunni.

Boltann verður að slá hreinlega, hvorki ýta honum né krafsa.

Leikið röngum bolta (nema í torfæru) – í holukeppni tapar þú holunni; í höggleik hlýtur þú tvö vítahögg og verður síðan að leiðrétta mistökin með því að leika réttum bolta eða fara að samkvæmt reglunum.

Á FLÖTINNI

Þú mátt gera við boltaför og gamla holutappa í púttlínu þinni, en ekki aðrar skemmdir, s.s. för eftir gaddaskó.

Þú mátt merkja, lyfta og hreinsa boltann þinn á flötinni. Leggðu hann alltaf aftur nákvæmlega á fyrri stað.

Þegar þú slærð högg á flöt ættir þú að ganga úr skugga um að flaggstöngin hafi verið fjarlægð eða hennar sé gætt.

Bolti sem leikið er á flötinni hittir flaggstöngina – þú tapar holunni í holukeppni en hlýtur tvö vítahögg í höggleik.

BOLTI HREYFÐUR ÚR KYRRSTÖÐU

Ef þú óviljandi veldur því að boltinn þinn hreyfist, lyftir honum þegar það er ekki leyfilegt eða hann hreyfist eftir að þú hefur miðað hann, skaltu bæta vítahöggi við og leggja boltann aftur á fyrri stað.

Boltinn ekki lagður aftur á fyrri stað – í holukeppni tapar þú holunni; í höggleik hlýtur þú alls tvö vítahögg.

Hreyfi einhver annar, eða bolti, boltann úr kyrrstöðu leggur þú hann aftur á fyrri stað þér að vítalausu.

BOLTI Á HREYFINGU SVEIGÐUR AF LEIÐ EÐA STÖÐVAÐUR

Bolti sem þú slærð, er stöðvaður eða sveigður af leið af þér, samherja þínum eða kylfubera – í holukeppni tapar þú holunni; í höggleik hlýturðu tvö vítahögg og leikur boltanum þar sem hann liggur.

Bolti sem þú slærð, er stöðvaður eða sveigður af leið af einhverjum öðrum – þú leikur honum vítalaust þar sem hann liggur, nema (a) í holukeppni að mótherji þinn eða kylfusveinn hans hafi sveigt hann af leið, en þá mátt þú velja að endurtaka höggið, eða (b) í höggleik, hafi bolti þinn verið sveigður af leið eftir högg á flöt, verður þú að endurtaka höggið.

Bolti stöðvaður eða sveigður af leið af liggjandi bolta – vítalaust og boltanum skal leika þar sem hann liggur nema í höggleik en þá hlýturðu tvö vítahögg hafi báðir boltarnir verið á flötinni áður en þú lékst.

AÐ LYFTA, LÁTA FALLA OG LEGGJA BOLTANN

Áður en bolta sem á að leggja aftur er lyft ( t.d. þegar bolta er lyft á flöt til þess að hreinsa hann) verður að merkja legu hans. Þegar boltanum er lyft til þess að láta hann falla eða leggja á annan stað (t.d. þegar látið er falla innan tveggja kylfulengda samkvæmt reglunni um ósláanlegan bolta o.s.frv.) er mælt með því að merkja leguna, þótt slíkt sé ekki skylda.

Þegar bolti er látinn falla skal standa beinn, halda boltanum útréttum armi í axlarhæð og láta hann falla. Hitti bolti sem látinn er falla leikmanninn, samherja hans, kylfubera eða búnað, verður að láta falla aftur, vítalaust.

Endurtaka verður ef bolti sem látinn er falla veltur út í torfæru, út úr torfæru, inn á flöt, út af eða aftur í þær aðstæður sem vítalausrar lausnar var leitað frá (t.d. óhreyfanlegri hindrun).

Láta þarf einnig falla aftur ef boltinn sem látinn er falla stöðvast meira en tvær kylfulengdir þaðan sem hann var látinn falla eða nær holu en hann upphaflega lá, eða næsti staður fyrir lausn var eða skurðpunkturinn þar sem boltinn fór síðast inn fyrir mörk vatnstorfæru.

Velti boltinn, þegar hann er látinn falla aftur, aftur í einhverja þessara aðstæðna skaltu leggja hann þar sem hann fyrst snerti völlinn þegar hann var látinn falla í annað sinn.

BOLTI TRUFLAR EÐA AÐSTOÐAR LEIK

Þú mátt lyfta bolta þínum eða láta lyfta hvaða bolta sem er ef þú telur að hann gæti orðið einhverjum öðrum leikmanni til ávinnings

Þú mátt láta lyfta hverjum þeim bolta sem gæti truflað leik þinn.

LAUSUNG OG HINDRANIR

Þú mátt hreyfa lausung nema þegar hún og boltinn þinn eru í torfæru. En, hafir þú fjarlægt lausung og það valdi því að bolti þinn hreyfist verður að leggja hann aftur á fyrri stað, og (hafi boltinn þinn ekki verið á flötinni) hlýtur þú eitt vítahögg.

Hreyfanlegar hindranir (t.d. hrífur, gosbauka o.s.frv.) má færa vítalaust hvar sem er á vellinum.

Hreyfist boltinn við það skal leggja hann vítalaust aftur.

Athugaðu staðarreglurnar á skorkortinu til glöggvunar varðandi óhreyfanlegar hindranir (t.d. vegna vega og stíga með varanlegu yfirborði o.s.frv.)

Vítalaus lausn (nema í vatnstorfæru) – trufli óhreyfanleg hindrun (t.d. úðarahaus) í raun legu boltans, stöðu þína eða sveiflu máttu láta bolta falla innan kylfulengdar frá næsta stað fyrir lausn, ekki nær holu. Sé boltinn á flöt er hann lagður á næsta stað fyrir lausn. Það er engin lausn veitt vegna truflunar á leiklínu, nema bæði truflunin og boltinn þinn séu á flötinni.

Ennfremur má leikmaðurinn, sé boltinn í glompu, taka lausn frá hindruninni, bak við glompuna gegn einu vítahöggi.

ÓEÐLILEGT ÁSTAND VALLAR

Vítalaus lausn (nema í vatnstorfæru) – sé bolti þinn þar sem þú sætir truflun vegna óeðlilegs ástand vallar (þ.e. aðkomuvatns, grundar í aðgerð eða holu aða hrúgu eftir grafdýr o.s.frv.) máttu láta bolta falla innan kylfulengdar frá næsta stað fyrir lausn, ekki nær holu. Sé boltinn á flöt er hann lagður á næsta stað fyrir lausn. Það er engin lausn veitt vegna truflunar á leiklínu nema bæði boltinn þinn og hið óeðlilega ástand vallar séu á flötinn. Ennfremur má leikmaðurinn, sé boltinn í glompu, taka lausn frá hindruninni, bak við glompuna gegn einu vítahöggi.

VATNSTORFÆRUR

Kynntu þér staðarreglurnar á skorkortinu hvort sjórinn, vatnið, áin, skurðurinn o.s.frv. sé vatnstorfæra eða hliðarvatnstorfæra.

Bolti í vatnstorfæru (gular stikur eða línur) – leiktu boltanum þar sem hann liggur, eða gegn einu

vítahöggi:

• leiktu aftur þaðan sem þú slóst boltann í torfæruna, eða

• láttu bolta falla eins langt og þú vilt bak við torfæruna þannig að bein lína sé um staðinn þar sem boltinn fór síðast yfir mörk hennar og þangað sem boltinn er látinn falla.

Bolti í hliðarvatnstorfæru (rauðar stikur eða línur) – til viðbótar valkostum vegna bolta í vatnstorfæru (sjá hér á undan), máttu gegn einu vítahöggi láta bolta falla innan tveggja kylfulengda frá og ekki nær holu en:

• staðnum þar sem boltinn fór síðast inn fyrir mörk torfærunnar, eða

• stað hinu megin við torfæruna jafn langt frá holunni.

BOLTI TÝNDUR EÐA ÚT AF

Kynntu þér staðarreglurnar á skorkortinu svo þú þekkir mörk vallarins.

Sé bolti þinn týndur utan vatnstorfæru, eða út af, verður þú að leika öðrum bolta þaðan sem þú slóst síðasta högg gegn einu vítahöggi, þ.e högg og fjarlægð. Þér leyfast 5 mínútur til leita að bolta, sé hann ekki fundinn eða þekktur, er hann týndur að þeim liðnum.

Teljir þú, eftir að leika bolta, að hann kunni að vera týndur utan vatnstorfæru eða út af ættir þú að leika “varabolta”. Þú verður að taka fram að það sé varabolti og leika honum áður en þú heldur áfram til að leita að upphaflega boltanum. Komi í ljós að upphaflegi boltinn sé týndur eða út af verður þú að halda áfram með varaboltann gegn einu vítahöggi. Sé upphaflegi boltinn hvorki týndur né út af verður þú að halda áfram leik með hann og hætta við varaboltann.

BOLTI ÓSLÁANLEGUR

Teljir þú bolta þinn ósláanlegan og hann liggur utan torfæru máttu að viðbættu einu vítahöggi

• láta bolta falla þar sem síðasta högg var leikið, eða

• láta bolta falla svo langt sem hentar á beina línu frá holu um þann stað sem boltinn lá, eða

• láta bolta falla innan tveggja kylfulengda frá boltanum og ekki nær holu,

Sé boltinn í glompu mátt þú fara að eins og segir hér á undan, nema þú látir falla innan tveggja kylfulengda eða á beina línu en þá verður að láta falla í glompuna.

Sé boltinn í vatnstorfæru verður þú að fara að samkvæmt reglunni um vatnstorfærur viljir þú leita lausnar.

Þar sem golf byggir fyrst og fremst á eigin eftirliti með að farið sé eftir leikreglum ættu allir kylfingar að þekkja vel grundvallarreglurnar, eins og þær eru kynntar í þessum bæklingi. Fletta ætti síðan upp í Golfreglubókinni þegar vafamál koma upp en bæði þar og víðar er vísað til ýmissa rita sem varða golfreglur og gætu verið áhugaverð og gagnleg. Sum þeirra hafa verið þýdd á vegum GSÍ en þau má nálgast á frummálinu í netfanginu www.randa.org.

 

Útgáfuréttur 2003 © The Royal and Ancient Golf Club of St.Andrews og The United States Golf Association