Ýmsar reglur

Ánægulegt er að sjá hve margir eru farnir að spila á vellinum. Nýliðar læra golfreglurnar smátt og smátt eftir því sem þeir spila oftar. Gott er að spila og læra af reyndari kylfingum, t.d. í mótum.
Nú hafa vonandi allir félagsmenn lært það að enginn á að spila á vellinum nema vera með skráðan rástíma.

GSS er aðildarfélag UMSS og við störfum eftir siðareglum UMSS. Reglurnar er að finna í handbók GSS á heimasíðu okkar og einnig á heimasíðu UMSS. Segja má að kjarninn í reglunum sé virðing, heilindi, sanngirni og réttlæti.

Að auki kappkosta félagsmenn GSS að umgangast völlinn af virðingu. Það þýðir m.a. að laga boltaför á flötum, fara ekki með kerrur inn á flatir og reyndar ekki á milli glompu og flatar. Við skilum torfum út á braut aftur á stað sinn og við rökum glompu (bönker) eftir að við höfum slegið þaðan. Rusl á heima í ruslatunnum og brotin tí í litlum kössum á teig.

Halda þarf uppi spilahraða. Í stuttu máli þarf hvert holl að gæta þess að halda í við næsta holl. Hleypið fram úr ef holl á eftir ykkur spilar hraðar og laust pláss er fyrir framan ykkur. Spilið af teig við hæfi. Staðsetjið kerru milli flatar og næsta teigs til að flýta fyrir eftir að leik brautar er lokið. Gangið rösklega af flöt og skráið skor við næsta teig. Takið bolta upp ef fjöldi högga er kominn 5 yfir par brautar.

Segja má að allar ofangreindar reglur kristallist í einni reglu: berðu virðingu fyrir náunganum, íþróttinni og vellinum.

Góða skemmtun á Hlíðarendavelli 

Categories: Óflokkað