Arnar Geir stóð sig vel á Íslandsmótinu

Íslandsmótið í golfi fór fram í Mosfellsbæ dagana 6. – 9. ágúst.  Mótið var fjölmennt og komu keppendur víðs vegar af að landinu en meirihlutinn þó frá suðvesturhorninu. Í karlaflokki kepptu 117 og í kvennaflokki 34.  Færri komust að en vildu, fyrsti kylfingur á biðlista karla var með 3,1 í forgjöf.  Arnar Geir Hjartarson keppti á mótinu og var hann eini keppandinn frá GSS. Mótið stóð yfir í 4 daga og að venju var fækkað í hópnum eftir 2 daga.  Í karlaflokki komust 70 kylfingar áfram og fengu að spila um helgina.  Formaður klúbbsins ræddi við Arnar Geir um mótið.

Hvernig var að spila á mótinu? „Umgjörðin í kringum svona mót er alltaf mjög flott og mikið gert til að gera þetta flottara en önnur golfmót. Mótið er alltaf gríðarsterkt og voru til dæmis 52 kylfingar með undir 0 í forgjöf“ svarar Arnar sem sjálfur er með +0,9 í forgjöf.
Mótið var með breyttu sniði vegna Covid. Kylfuberar voru ekki leyfðir og sjálfboðaliði fylgdi hverju holli til að raka glompur, taka bolta úr holunni og taka stöngina úr. „Þetta var mjög skrítið fyrst um sinn en vandist fljótt og var eiginlega orðið ótrúlega þægilegt að vera með einn aðila alltaf með sér, ég var alltaf með tandurhreinan bolta þökk sé sótthreinsuninni hjá sjálfboðaliðanum“ segir Arnar.
Arnar var einn þeirra sem komust í gegnum niðurskurðinn. Hann vann vel fyrir því með góðri spilamennsku. „Ég byrjaði mótið vel og lék fyrsta hringinn á parinu á fimmtudegi. Ég átti svo rástíma seint á föstudag og lenti í mjög slæmu veðri um kvöldið sem margir keppenda sluppu við fyrri partinn. Hringurinn var mjög erfiður en ég komst þrátt fyrir það örugglega í gegnum niðurskurðinn.“ Ævintýrinu var ekki lokið. Laugardagurinn byrjaði illa en Arnar náði sér svo á strik og endaði mjög vel þann dag. Kylfingar glímdu svo við erfiðar aðstæður á sunnudegi, lokadegi mótsins,. „Það var alveg vitlaust veður á sunnudagsmorgun, rok og algjört úrhelli, mjög erfiðar aðstæður og sýndi það sig best á skori keppenda. Ég átti frábæran dag í óveðrinu sem var þarna um morguninn og vann mig upp um 14 sæti. Ég endaði í 24. sæti og lék á 299 höggum eða 11 höggum yfir pari vallarins“ segir Arnar sem er sáttur við árangurinn.

Arnar má svo sannarlega vera stoltur. Á mótinu voru sterkir kylfingar, þar á meðal atvinnumenn. Hann hafnaði í 24. sæti ásamt Eyþóri Hrafnar frá GA sem verður að teljast mjög góður árangur.  Þeir tveir náðu bestum árangri kylfinga af Norðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi.

„Það er alltaf ótrúlega gaman að fá að taka þátt í svona móti og vera partur af þessu, það er mikil umfjöllun og myndavélar um allan völl. Þetta er minn besti árángur á Íslandsmótinu og er ég mjög ánægður með þessa daga“ segir Arnar að lokum.

GSS óskar Arnari Geir Hjartarsyni innilega til hamingju með góðan árangur.

Categories: Afreksstarf