Saga GSS

Unnar Rafn Ingvarsson tók saman í tilefni 50 ára afmælis GSS árið 2020.

Upphafið

Rotaryklúbburinn á Sauðárkróki hefur lagt sitt að mörkum við uppbyggingu íþróttamannvirkja í Skagafirði. Klúbburinn hefur að markmiði sínu að efla margs konar starfsemi sem hann telur vera til hagsbóta fyrir samfélagið. Þannig hvatti klúbburinn til uppbyggingar á skíðasvæði í Tindastóli og snemma vetrar árið 1970 tilnefndi klúbburinn þá Friðrik J. Friðriksson lækni og Reynir Þorgrímsson framkvæmdarstjóra til að kanna áhuga á uppbyggingu golfíþróttarinnar á Sauðárkróki. Þeir Friðrik og Reynir hófust þegar handa og boðuðu til fundar áhugafólks þann 9. nóvember sama ár. Viðtökurnar voru góðar og ákveðið var þá á fundinum að stofna golfklúbb og þeir ríflega 20 sem á fundinn mættu töldust til stofnfélaga Golfklúbbs Sauðárkróks. Á fundinn mætti einnig Þorvaldur Ásgeirsson úr Reykjavík, sem mun á þeim tíma hafa verið eini atvinnukylfingur landsins. Sýndi hann kvikmynd um golf og fræddi fundarmenn um ýmislegt varðandi golfíþróttina. Reynir Þorgrímsson var kjörinn fyrsti formaður klúbbsins, en aðrir í stjórn voru Björn Jónsson ritari og Sigurður Jónsson gjaldkeri. Varamenn voru kjörnir þeir Garðar Guðjónsson og Erling Örn Pétursson, endurskoðendur þeir Stefán Ó. Stefánsson og Friðrik J. Friðriksson. Daginn eftir stofnfundinn hóf Þorvaldur Ásgeirsson kennslu meðal félagsmanna og starf klúbbsins hófst af fullum krafti. Mánuði síðar var sótt um aðild að Golfsambandi Íslands og Ungmennasambandi Skagafjarðar. Golfsamband Íslands samþykkti umsóknina með því skilyrði að klúbburinn yrði aðili að Ungmennasambandi Íslands og þar með Íþróttasambandi Íslands. Ungmennasamband Skagafjarðar samþykkti umsókn klúbbsins og þar með varð klúbburinn formlega aðili að Golfsamband Íslands.

Friðrik læknir

Áhugi á golfíþróttinni varð talsverður þegar í upphafi og sýnt að nauðsynlegt væri að útbúa golfvöll sem allra fyrst. Þorvaldur Ásgeirsson leitaði að heppilegu svæði undir golfvöll í heimsókn sinni á Sauðárkrók og taldi hann að svæði norðan Tjarnartjarnar heppilegasta svæðið sem völ væri á. Raunar höfðu áhugasamir golfarar þegar hafið golfiðkun á svæðinu, þótt enginn væri völlurinn. Svæðið var fyrir neðan þáverandi flugbraut. Í bréfi sem Reynir Þorgrímsson ritaði Bæjarstjórn Sauðárkróks 2. maí 1971 sagði m.a: Þetta svæði er innan girðingar fyrir neðan núverandi flugvöll. Svæði þetta er mjög gróðurlítið og þau fáu strá, sem upp koma, fljótt kroppuð af þeim fáu skepnum, sem þar eru geymdar. Svæði þetta er aðalega malarkambar, sandbreiður og mýrarfen með tjörnum. En þannig landslag hentar mjög vel fyrir golfvelli.

Bæjarstjórn Sauðárkróks úthlutaði Golfkúbbnum þó ekki svæðinu formlega. Engu að síður hóf  Þorvaldur skipulagningu þess með það fyrir augum að leggja þar golfvöll. Taldi hann að þar mætti koma fyrir  9. holu golfvelli auk æfingarsvæðis.

Upphafleg teikning af golfvallarsvæði við Tjarnartjörn

Í upphafi voru þó aðeins lagðar 6 brautir, en landið var sléttlent og þurrt og því þurfti ekki að fara út í verulegar framkvæmdir. Þessi völlur nýttist félagsmönnum vel í fyrstu, enda kröfurnar kannski ekki miklar.

Ríflega 20 félagar voru skráðir í klúbbinn á vordögum 1971 og um sumarið bættust enn í hópinn 15 félagar. Munu þeir hafa stundað íþróttina nokkuð sumarið 1972, enda kom Þorvaldur Ásgeirsson aftur á Sauðárkrók og kenndi mönnum réttu tökin á kylfunum. Árin þar á eftir dró hins vegar verulega úr félagsstarfsemi, þótt ávallt hafi einhverjir félagar haldið sér við á golfvellinum við Tjarnartjörn. Kom þar ýmislegt til. Fyrir það fyrsta flutti formaðurinn, Reynir Þorgrímsson, úr bænum en hann var mikil driffjöður í starfseminni. Í annan stað höfðu hestamenn, sem höfðu aðstöðu skammt frá golfvellinum, lítið álit á nýjum nágrönnum og beittu hrossum sínum gjarnan á golfsvæðið og loks kom að því að hestamönnum var úthlutað svæðinu, þrátt fyrir að kylfingar mættu hafa þar aðstöðu áfram í einhvern tíma.

Eitthvað líf var þó í starfi klúbbsins þessi ár. Í byrjun árs 1973 áttu fjórir forystumenn klúbbsins fund með bæjarráði og var þar bókað að kannað yrði hvort mögulegt væri að byggja golfvöll á Hlíðarendalandi. Samþykkt var að kortleggja landið og leita álits skipulagssérfræðinga. Mun sú mæling hafa átt sér stað þá um sumarið, en ekkert varð að framkvæmdum í bili. Næstu sumur voru nokkrir kylfingar á ferli á gamla vellinum við Tjarnartjörn, þótt ekki væri skipulagt starf í klúbbnum.

Klúbburinn endurreistur

Árið 1977 var efnt til fundar í Golfklúbbi Sauðárkróks og ný stjórn kosin. Formaður varð Friðrik J. Friðriksson, varaformaður Kristján Skarphéðinsson en aðrir í stjórn Guðmundur Guðmundsson, Steinar Skarphéðinsson og Gunnar Guðjónsson. Varamenn voru Sigmundur Pálsson og Sigurður Jónsson. Reyndust þessir stjórnarmenn eiga eftir að koma mjög við sögu við uppbyggingu golfiðkunar á Sauðárkróki á næstu árum. Markmiðið nýrrar stjórnar var að byggja upp nýjan golfvöll á Sauðárkróki og efla starfsemi klúbbsins á allan hátt.

Nýkjörin stjórn hófst strax handa að fá vallaraðstöðu og í því skyni voru kannaðir möguleikar á að leigja tún í Skarði eða Áshildarholti, eða þá Skeiðvöllinn á Sauðárkróki, Króksmýrar eða aðra túnbleðla innan Sauðárkróks. Niðurstaðan varð sú að í fyrstu var ákveðið að nýta gamla golfsvæðið við Tjarnartjörn. Steinar Skarphéðinsson hefur frá því sagt að árið 1977 hafi Friðrik J. Friðriksson komið að máli við hann og beðið hann að aðstoða sig og Helga Rafn Traustason kaupfélagsstjóra við að lagfæra golfvöllinn og útbúa holur sem hægt væri að nota. Útbjuggu þeir þar sex holur. Holubotnarnir voru niðursuðudósir sem þeir fundu á ruslahaugunum. Þar fundu þeir fimm dósir af þokkalegri breidd en ein var þó svokölluð hálfdós og því sínu mjóst.  Létu þeir félagar það ekki á sig fá og notuðu það sem fannst. Sú dós sem grennst var reynist að sjálfsögðu erfiðasta hola vallarins, en menn létu það yfir sig ganga, enda var jafnt á komið fyrir öllum sem urðu að kljást við að koma boltanum í holuna.

Stefán Pedersen

Fyrsta golfkeppni á vegum klúbbsins haldin 11. september 1977. Brautinar 6 voru slegnar og reynt að útbúa þokklegar flatir. Þar voru spilaðir þrír hringir, eða 18 holur. Stefán Pedersen fór á fæstum höggum eða 88. Árni Friðriksson og Steinar Skarphéðinsson fóru á 90 höggum. Kristján Skarphéðinsson gaf fyrstu verðlaun, silfurkönnu, en Erling Örn Pétursson gaf golfkylfur fyrir annað og þriðja sæti. Stefán varð þannig fyrsti klúbbmeistari Golfklúbbs Sauðárkróks, en þátttakendur í þessu fyrsta móti golfklúbbins voru 17. talsins. 

Siflurkannan, fyrstu verðlaun
fyrsta móts GSS. Ljósmynd KBH

Mikill hugur var í mönnum árið 1977 og talsverður áhugi á golfíþróttinni. Golfkennari var hjá klúbbnum um tíma og kenndi allmörgum réttu handtökin og margir nýttu dauðar stundir til að æfa sig á svæðinu við Tjarnartjörn.
Hins vegar var öllum ljóst að mikilvægast væri að finna gott svæði undir golfvöll. Stjórn klúbbsins sendi 14. júlí 1978 beiðni til Bæjarstjórnar Sauðárkróks um land undir golfvöll. Fengu menn þá augastað á landi Hlíðarenda fyrir ofan Sauðárkrók sem framtíðargolfsvæði fyrir golfvöll.  Hitti stjórn klúbbsins bæjarráð, sem tók vel í þessa málaleitan og ákveðið var að veita klúbbnum heimild til að skipuleggja golfvöll að Hlíðarenda. Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að Hlíðarendalandið væri framtíðargolfsvæði var enn ljóst að það yrði ekki tilbúið til golfkiðkunnar fyrr en eftir mörg ár. Því var mikilvægt að finna bráðabirgðasvæði þar sem hægt væri að stunda golf samhliða því að byggja upp framtíðargolfvöllinn.

Um veturinn 1977-1978 hélt klúbburinn úti inniaðstöðu í Sláturhúsi K.S. og var kaupfélagsstjóri, Helgi Rafn Traustason, betri en enginn þegar að því kom að styðja við bakið á klúbbnum, en auk þess að leggja fram aðstöðu, var hann virkur félagsmaður og sýndi gjarnan kvikmyndir um golfíþróttina á fundum innan félagsins.

Golfvöllurinn að Skarði

Í byrjun árs 1978 fóru fram viðræður við Ólaf Lárusson bónda í Skarði um að Golfklúbburinn fengi hjá honum land undir golfvöll. Kvöld eitt var ákveðinn fundur þeirra Ólafs á Skarði, Steinars Skarphéðinssonar og Fririks J. Friðrikssonar.  Stóð Ólafur út á hlaði og beið þeirra félaga, en hafði á orði honum þætti gott að vita hvort Friðrik héraðslæknir væri svo stundvís ef hann væri í læknisvitjun. Samningur um leigu á túnum var undirritaður 21. febrúar 1978. Samkvæmt honum sá klúbburinn um alla umhirðu og slátt, en landeigandi fékk að hirða reiturnar í kring um brautirnar til þurrkunar og nýtingar. Þá sá klúbburinn um áburðargjöf, viðhald girðinga og annað það sem að vellinum sneri. Greiddi klúbburinn sem svaraði 10.000 krónum fyrir hvern hektara lands, sem leigður var en heildarstærð vallarins reyndist 15. hektarar. Steinar Skarphéðinsson og Haraldur Friðriksson rissuðu upp brautir á vellinum. Það vor var pöntuð sláttuvél hjá SÍS, prentuð skorkort og gert annað það sem þurfti, til að hægt væri að halda golfkeppnir á hinum nýja velli.  Þá var völlurinn girtur af, smíðaðar tröppur á girðingar og sett upp skilti á völlinn. Félagar rissuðu upp fjórar hugmyndir af mögulegum velli, og leituðu síðan til áðurnefnds Þorvaldar Ásgeirssonar, sem ráðlagði hvað best væri í stöðunni. Vallarlagningin að Skarði varð gerð með því augnamiði að kosta sem allra minnstu til, enda var þar tjaldað til einnar nætur ef svo má segja. Skarðsvöllur var aldrei hugsaður sem framtíðargolfvöllur klúbbsins. Steinar Skarphéðinsson hafði verið í Bretlandi keypti holuskera, flögg og annan búnað til að taka holur og voru verkfærin komin á Sauðárkrók áður en aðrir vissu af. Mun klúbburinn ekki hafa staðið straum af kostnaði vegna þessa. Þá lögðu aðrir til vélar og annað sem þurfti, auk þess sem menn verðlögðu ekki þær mörgu stundir sem í þessar framkvæmdir fóru. Þá um veturinn hannaði Haraldur Friðriksson merki klúbbsins og undirbúningur var hafinn að byggingu skýlis til að hafa á golfvellinum.

Fyrsta mót sem haldið var á Skarðsvelli var einnar kylfu keppni 11. júní 1978, keppendur voru 10 talsins. Í kjölfarið fylgdi öflugt mótahald. Meistaramót var haldið í lok júlí og varð Steinar Skarphéðinsson þar hlutskarpastur.

Á aðalfundi klúbbsins 1978 voru skipaðar ýmsar nefndir, sem vinna áttu að einstökum þáttum í starfi klúbbsins. Auk stjórnar voru skipaðar vallarnefnd, kappleikjanefnd, forgjafarnefnd, laganefnd og húsbyggingarnefnd. Markmiðið var að öflugur hópur leiddi starfið við uppbyggingu golfklúbbsins og menn skiptu með sér verkum því margar hendur vinna létt verk. Enn var vilji til að byggja upp völlinn í landi Hlíðarenda, býlis á Nöfunum fyrir ofan Sauðárkrók og á svokölluðum Hálsum. Landið var að hluta til útgrafið af mógröfum. Það var afar votlent og því vart nýtanlegt til hefðbundins búskapar.  

Áhugi Þorsteins Þorsteinsson bæjarstjóra á Sauðárkróki réð miklu um að ráðist var í uppbyggingu að Hlíðarenda en Þorsteinn sýndi málinu strax mikinn áhuga og var drífandi í öllum samskiptum sínum við forsvarsmenn golfklúbbsins. Bæjarstjórn tók einnig vel í að styðja myndarlega við bakið á skagfirskum kylfingum. Í kjölfar viðræðna við bæjarstjórn var leitað til Þorsteins Einarssonar, íþróttafulltrúa ríkisisins sem veitti verkefninu mikinn stuðning og benti á að sænskur golfvallahönnuður Jan Sederholm gæti aðstoðað við hönnun vallarins.  Sederholm var þekktur vallahönnuður og hannaði fjölmarga golfvelli í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum. Golfsamband Íslands og Þorsteinn Einarsson Íþróttafulltrúi ríkisins hafði fengið hann til að vera til ráðgjafar hér á landi. Guðjón Ingimundarson, sem var óþreytandi við uppbygginu íþróttasvæða í Skagafirði hafði milligöngu um þessi samskipti og var hann golfklúbbnum afar hjálpsamur. Sederholm gerði frumdrög að Hlíðarendavelli í lok ársins 1979. Hugmyndir hans voru í raun tvær. Plan A og plan B. Fyrri tillagan var miklu dýrari en sú seinni og að mörgu leyti óraunhæf. Lagði Steinar Skarphéðinsson tillögu B fyrir Þorstein bæjarstjóra. Þorsteinn skoðaði tillöguna, en sagði svo: „Fyrst það er til tillaga B, þá hlýtur að vera til tillaga A.“ og fékk hann þá að sjá þá fyrri og dýrari. Að sjálfsögðu var tillaga B lögð var fyrir Bæjarstjórn Sauðárkróks til samþykktar og í kjölfarið var hafist handa við að semja við þá aðila sem höfðu erfðafesturétt á hluta landsins. Tókust þeir samningar bæði fljótt og vel.

Leitað var til Egils Bjarnasonar ráðunauts og ráðlagði hann um hvernig væri hægt að þurrka landið á Hálsunum, en það var nauðsynlegt áður en hægt væri að hefjast handa við brautalagningar. Um mitt ár 1979 var hafist handa við að grafa skurði á nýja svæðinu, en gröfur Búnaðarsambandsins sáu um gröftinn og var kostnaðurinn sem af því hlaust ekki greiddur af klúbbnum.

Á árunum 1978 – 1979 var áfram fjárfest í ýmsum tækjum sem nauðsynleg voru til að geta haldið úti golfvelli. Þar á meðal var keypt flatarsláttuvél og traktor. Traktorinn kostaði 50.000 krónur. Steinar safnaði þeim fjármunum hjá klúbbmeðlimum. Segir það meira en mörg orð um þá staðfestu sem félagar sýndu í uppbyggingarstarfinu. Athygli vekur að árlega var hagnaður af rekstri klúbbsins þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Haraldur Friðriksson var gjaldkeri og gerði það með miklum sóma. Vorið 1980 var viktarskúr á Sauðárkrókshöfn fluttur upp á Skarðsvöll og endurbyggður þar og varð hann félagsaðstaða fyrir klúbbmeðlimi, meðan völlurinn var þar og nýttist vel þó hann væri hvorki stór eða reisulegur.

Mótahald var komið í nokkuð fastar skorður á árinum 1978 og 1979. Árlega var haldið meistaramót, einnar kylfu keppni, Jónsmessumót, Drangeyjarmót, Firmakeppni og Bændaglíma. Fyrsta stórverkefni klúbbsins var hins vegar Norðurlandsmót sem haldið var á Skarðsvelli í lok ágúst 1980 og tókst vel. Völlurinn á Skarði var að mörgu leyti skemmtilegur og eiga margir ánægjulegar minningar frá honum. Þó völlurinn hafi verið lagður á gömlum túnum var hann sléttur og þurr. Þá hafði hann þann meginkost að lítinn snjó setti á völlinn og var hann því snemma tilbúinn til spilamennsku. Hins vegar gat blásið um Skarðstún, en sumir eldri félagar segja þó að golan hafi farið hægar yfir á Skarðsvelli en Hlíðarendavelli þar sem Skarðagolan getur leikið kylfinga grátt.

Fjárhúsin að Hlíðarenda. Ljósm Kristján C. Magnússon. Hsk.

Hlíðarendavöllur lagður

Sauðárkróksbær úthlutaði Golfklúbbnum landi við Hlíðarenda þann 6. október 1978 auk 10-12 hektara landi í svokölluðum Hálsum, vestan Hlíðarenda. Við tók það starf að hanna golfvöll á svæðinu. Mun Steinar Skarphéðinsson hafa borið hitann og þungann af samskiptum við þá aðila sem til slíkra mála þekktu. Uppbygging á Hlíðarendavelli var í fullum gangi árið 1980. Jarðýtur Búnaðarsambandins unnu að sléttun brauta og fyllt var í mógrafir, sem voru þar sem nú er 4. og 8. braut. Þá voru sett dreni þar sem nauðsyn þurfti og aspeströr notuð í drenskurðina, en rörin fengust frá hitaveitunni.  Vorið 1981 var sáð í brautir og um sumarið voru fengnar þökur á nokkrar flatir. Þá var unnið að girðingum í kringum völlinn, enda höfðu félagsmenn lítinn áhuga á nærveru sauðkinda í nýgræðingum sem skaut upp kollinum í nýsáðum brautunum. Eftir var þó að leysa eitt smávægilegt vandamál. Hlíðarendi sjálfur var enn nýttur af Marteini Jónssyni og hafði hann einnig afnot af fjárhúsum, sem nefnd voru Hrólfsstaðir og voru nokkru vestar í Hlíðarendalandi. Það mál var leyst með því að Marteinn fékk að halda skepnur að Hrólfsstöðum, en Hlíðarendi sjálfur varð vettvangur lokaholu vallarins, þeirrar 9, auk þess sem fyrirhugað var að byggja félagsskála á bæjarhólnum sjálfum. Marteinn sinnti skepnum sínum að Hrólfstöðum í nokkur ár og voru fjárhúsin skammt frá 5. flöt vallarins. Kom svo að því að Marteinn varð frá að hverfa og fjárhús hans jöfnuð við jörðu. Vallarnefnd bar hitann og þungann af lagningu nýja vallarins og var Steinar Skarphéðinsson í forsvari hennar, en aðrir í nefndinni voru Sigmundur Guðmundsson, Páll Þorsteinsson, Sigurgeir Angantýsson, Reynir Kárason og Magnús Rögnvaldsson. Á þeim tíma var stjórnin undir forystu Friðriks J. Friðrikssonar en aðrir í stjórn voru Kristján Skarphéðinsson, Sigmundur Guðmundsson, Steinar Skarphéðinsson og Haraldur Friðriksson. Mikið kom einnig til með að mæða á húsnefnd, undir forystu Magnúsar Rögnvaldssonar, en auk hans voru Sigmundur Pálsson, Broddi Þorsteinsson og Sverrir Valgarðsson í nefndinni og Kappleikjanefnd var undir forystu Sverris Valgarðssonar. Í raun báru örfáir menn uppi það mikla starf sem unnið var í kring um flutning vallarins frá Skarði að Hlíðarenda. Þeir sáu ávöxt erfiðisins þegar klúbburinn flutti formlega að Hlíðarenda, sumarið 1982.

Þrátt fyrir flutning vallarins að Hlíðarenda var langur vegur frá því að völlurinn væri tilbúinn til spilunar. Enn voru ekki komnar þökur á allar flatir og mikið starf var óunnið við að lagfæra brautir og karga umhverfis völlinn. Höfðu sumir nokkrar áhyggjur af framkvæmdum kylfinga á Hlíðarenda. Einhverjir töldu fornbýlið Hæringsbúðir vera í hættu, en sá ótti reyndist ástæðulaus, enda eru Hæringsbúðir enn greinilegar fyrir vestan völlinn, en nú nýverið hefur komið í ljós að minjarnar eru afar gamlar, meðal annars, allstór skáli skammt vestan girðingar handan þriðju brautar vallarins. Þá voru sauðfjárræktendur, og þeir voru margir á Sauðárkróki, ekki allir yfir sig hrifnir af nábýlinu við golfarana, en flestir tóku þessum nábúum vel, enda var þess gætt að vel væri girt og sauðfé bæjarbúa væri í hæfilegri fjarlægð frá golfbrautunum. Þrátt fyrir það er eltingarleikur við sauðfé og hross næsta árviss viðburður á Hlíðarenda, enda efalítið erfitt fyrir skepnurnar að horfa uppá grænar grundir golfvallarins og mega ekki nýta sér grængresið.

Golfskálinn að Hlíðarenda 1986. Ljósm. Þórhallur Ásmundsson

Árið 1983 blasti hins vegar við næsta stórverkefni, að koma upp veglegum skála að Hlíðarenda. Gömlu viktarskúrarnir höfðu að vísu gegnt sínu hlutverki vel, en ljóst var að stór skáli yrði að rísa. Miklar vangaveltur voru um hvers konar hús ætti að byggja og var málið tekið fyrir á nokkrum fundum innan stjórnar og á aðalfundum. Ákvörðun var loks tekin í byrjun árs 1983, að kaupa einingarhús frá SG Einingum á Selfossi og kostaði það ríflega 900.000. Eftir var þá að koma upp húsinu og smíða innréttingar. Var það verkefni þeirra smiða sem í kúbbnum voru og unnu þeir að því verkefni á árunum 1983 til 1984 og var þá því verki að mestu lokið. Hins vegar voru margvísleg verkefni eftir í skála, m.a. uppsetning innréttinga o.þ.h. Var verkið allt unnið í sjálfboðavinnu.

Nauðsynlegt reyndist að fá starfsmann á völlinn til að sinna slætti og öðrum tilfallandi verkefnum, enda viðhald golfvallar verulega tímafrekt. Ýmsir félagar höfðu reyndar komið að því að  sinna slætti og öðrum verkefnum, en árið 1985 var orðið ljóst að við svo búið mátti ekki standa. Hólmar Ástvaldsson var þá ráðinn til þeirra verka og sinnti hann því um tveggja ára skeið. Magnús Rögnvaldsson var formaður vallarnefndar og vann hann að viðhaldsverkefnum sem voru ærin, en einnig var Steinar Skarphéðinsson, þá formaður klúbbsins sífellt að vinna að endurbótum á vellinum.

Steinar Skarphéðinsson

Tíu árum eftir að farið var í framkvæmdir við Hlíðarendavöll, má segja að hann hafi verið orðinn fullbúinn golfvöllur, að margra mati einn besti 9. holu golfvöllur landsins. Völlurinn var fjölbreyttur og erfiður. Hann var lengi vel lengsti völlur landsins af rauðum teigum og veruleg áskorun fyrir alla kylfinga. Hins vegar voru mörg handaverk eftir svo svæðið í heild myndi nýtast að fullu til keppni og leiks, en ekki síður til uppbyggingarstarfs. GSS lögðu mikla áherslu á að byggja upp unglingastarf innan klúbbsins og það skilaði brátt stórkostlegum árangri.

Uppbygging starfs fyrir unglinga

Þegar í upphafi var forsvarsmönnum GSS ljóst að mikilvægt væri að ná til barna og unglinga og kenna þeim tökin á íþróttinni þegar í upphafi. Félagsmenn voru flestir karlmenn, en konur og börn sjaldséðir gestir á golfvellinum við Tjarnartjörn. Þetta breyttist þó með tilkomu Skarðsvallar. Börn og unglingar fóru að stunda golfíþróttina þó í litlu mæli væri.  Með tilkomu Hlíðarendavallar gjörbreyttist öll aðstaða til að halda úti öflugu unglingastarfi, einkum eftir að golfskálinn reis.

Þrátt fyrir að skipulegu unglingastarfi hafi ekki verið til að dreifa fyrr en upp úr 1990 voru fengnir golfkennarar tíma og tíma og haldin stutt námskeið, sem nýttust þeim allra áhugasömustu. Einn af þeim sem fundu sig í golfíþróttinni var Örn Sölvi Halldórsson sem var í hópi efnilegustu kylfinga landsins á sínum tíma. Hann varð,  þrátt fyrir ungan aldur, margsinnis klúbbmeistari GSS og var í hópi bestu kylfinga landsins eftir að hann flutti til Reykjavíkur og hóf keppni undir merki Golfklúbbs Reykjavíkur.

Árna þáttur Jónssonar

Árni Jónsson golfkennari

Árni Jónsson golfkennari fluttist til Sauðárkróks árið 1990 og hóf þegar að vinna að kennslu barna og unglinga. Sama ár var í fyrsta skipti farið með unglingasveit á Íslandsmót og hefur það verið gert árlega síðan.  Aðeins þremur árum síðar, árið 1993, varð sveit GSS í öðru sæti í Íslandsmóti unglinga. Greinilega var frjór jarðvegur fyrir golfíþróttina á Sauðárkróki og tugir krakka stunduðu æfingar af kappi. Árný Lilja Árnadóttir aðstoðaði föður sinn við kennsluna og fóru þau einnig á Blönduós og Skagaströnd til að efla starfið þar. Árný Lilja reyndist betri en enginn, enda landsliðskona í yngri flokkum, þegar hún bjó á Akureyri. Á Blönduósi kom upp á sama tíma einn besti kylfingur landsins, Heiðar Davíð Bragason. Augljóst er að hann hefði ekki náð flugi í golfíþróttinni, ef tilsögn Árna og Árnýjar hefði ekki notið við. Árni var ófeiminn við að sækja ungmenni til liðs við golfið. Hann mætti til dæmis með golfkylfur á fótboltaæfingar hjá Tindastóli og leyfði krökkunum að spreyta sig við að slá golfbolta. Árangurinn varð ótrúlegur og fjöldi barna og unglinga æfði golf samhliða öðrum íþróttum.

Árið 1994 eignaðist GSS fyrsta Íslandsmeistarann í einstaklingskeppni þegar Örvar Jónsson sigraði með yfirburðum í flokki 14 ára og yngri. Það ár voru þrír af sjö fyrstu í Íslandsmótinu í flokki 14 ára og yngri félagar í GSS, en auk Örvars kepptu þar Gunnlaugur Hafsteinn Elsuson sem varð í sjötta sæti og Guðmundur Ingvi Einarsson sem varð í því sjöunda. Ári síðar eignaðist klúbburinn fyrstu Íslandsmeistarana í sveitakeppni, en þá var keppni unglinga 14 ára og yngri haldin á Sauðárkróki. Árið eftir sigraði GSS í sömu keppni, auk þess sem piltar 15-18 ára urðu í þriðja sæti og sömuleiðis stúlkur 15-18 ára, og var það í fyrsta skipti sem GSS sendi stúlknasveit á Íslandsmót. Sveit 14 ára og yngri var skipuð þeim Guðmundi Víði, Kjartani Ómarssyni, Einari Hauki Óskarssyni og Árna Má Jónssyni. Piltasveitin var skipuð Guðmundi Ingva Einarssyni, Sigurði G. Jónssyni, Örvari Jónssyni og Gunnlaugi Hafsteini Elsusyni en stúlknasveitin þeim Höllu Erlendsdóttur, Margréti Höllu Hallsdóttur, Sigríði Viggósdóttur, Sesselju Barðdal, og Eygló Óttarsdóttur. Það ár varð orðið ljóst að Golfklúbbur Sauðárkróks var í hópi öflugustu klúbba landsins þegar kom að starfi fyrir börn og unglinga. Vakti þessi árangur mikla eftirtekt og mun almennt hafa verið viðurkennt að Árni Jónsson var fremstur meðal jafningja þegar kom að þjálfun ungra kylfinga. Í viðtali við Morgunblaðið eftir að Örvar varð Íslandsmeistari 1994 sagði Árni Jónsson aðspurður að það væri skemmtilegra að kenna unglingum en fullorðnu fólki. Hann kannaðist líka við það að keppa sem unglingur í golfi. Sagði hann í gamansömum tón að hann hafi verið fyrsta unglingavandamálið í golfi á Íslandi, en hann var ungur að árum þegar hann stalst inn á Jaðarsvöll á Akureyri við lítinn fögnuð hinna ráðsettu kylfinga, sem töldu íþróttina ekki vera fyrir börn. Árni keppti fyrst í landsmóti í golfi árið 1959 og keppti með hléum til ársins 1980. Árangur Árna við golfþjálfum var vissulega einstakur. Í viðtali við DV 1996 við Björn Stein Sveinsson þáverandi formann GSS kom m.a. fram að 4 af 24 unglingum í landsliðshópi GSÍ væru frá Sauðárkróki. Var einstakt að svo fámennur klúbbur væri með svo öfluga ungliða.

Eftir sigur Örvars Jónssonar á Íslandsmótinu 1994 tók hann þátt í á European Young Masters keppninni á Wentworth velli í Englandi. Endaði Örvar um miðjan hóp en sigurvegari með yfirburðum varð ungur Spánverji, Sergio Garcia að nafni, sem þar var að skapa sér nafn sem einn besti kylfingur heims. Mætti hafa mörg orð um frammistöðu þessara unglinga í GSS. Halla Björk, systir Gunnlaugs Hafsteins var í allra fremstu röð ungra kvenkylfinga árið 1998 og sigraði í stigakeppni unglinga. Gunnlaugur,  Örvar og Guðmundur Ingvi stóðu sig með mikilli prýði, en þau voru öll í landsliðshópnum. Að stunda golf í fremstu röð á Íslandi og vera búsettur á Sauðárkróki skapaði margvíslega erfiðleika. Ýmsir töldu að fleiri unglingar úr GSS hefðu átt heima í landsliði og fá þau tækifæri sem landsliðskrökkum bjóðast. Ekki verður lagt á það mat hér. Einnig var mjög erfitt fyrir ungmenni frá Sauðárkróki að taka fullan þátt í mótaröðum unglinga. Kostnaður við ferðir var mikill og krafðist mikils tíma, en sú vinna og kostnaður lenti á foreldrunum að lang mestu leyti. Þetta er viðvarandi vandamál innan golfhreyfingarinnar og ekki hefur verið gerð nein tilraun til að koma til móts við unglinga af landsbyggðinni af hálfu G.S.Í. þrátt fyrir að margir af bestu kylfingum landsins hafi komið frá byggðalögum utan höfuðborgarsvæðisins.

Árni Jónsson hætti störfum hjá GSS árið 1998, en störf hans áttu eftir að skila fleiri afreksmönnum í golfíþróttinni á Sauðárkróki. Sumarið 1999 var gerður samningur við David Barnwell golfkennara á Akureyri um golfkennslu og var Patricia Smiley við kennslu á Sauðárkróki um sumarið. Var ánægjuleg tilbreyting að fá konu sem golfkennara og varð koma hennar til þess að auka áhuga kvenna á golfíþróttinni.

Sumarið 1999 hófst hins vegar mikið ævintýri í lífi Guðmundar Ingva Einarssonar, sem þá var orðinn unglingalandsliðsmaður í golfi og af mörgum talinn efnilegasti kylfingurinn í hópi margra góðra innan GSS. Þá um sumarið sigraði hann í flokki unglinga í flokki 15-18 ára á Íslandsmótinu sem haldið var í Vestmannaeyjum. Einnig tók hann þátt í Norðurlandamóti um sumarið og varð í 8. sæti, aðeins þremur höggum frá verðlaunum. Þá er ótalið að hann varð stigameistari unglinga það ár, en sá árangur tryggði honum sæti í liði Norðurlanda, sem keppti við Bandaríkin í liðakeppni árið 2000. Sú keppni var stökkpallur fyrir efnilega kylfinga, gáfu útsendarar háskóla í Bandaríkjunum keppninni góðar gætur og buðu efnilegum kylfingum skólastyrki. Í keppnina fór hann með hóflegar væntingar, en gekk vonum framar. Keppnin sem svipar til Ryderkeppni fullorðinna og ber heitið Izzo cup var æsispennandi. Guðmundur hlaut 1 ½ vinning af 4 mögulegum, en Bandaríkjamenn sigruðu með 24 ½ vinningi gegn 17 ½ vinningi Norðurlandabúanna. Mun þetta hafa verið vel ásættanleg úrslit miðað við þá yfirburði sem Bandaríkjamenn höfðu í golfi á þessum tíma. Í framhaldinu keppti Guðmundur á Western Junior Cup mótinu í Bandaríkjunum. Góður árangur Guðmundar varð til þess að honum var boðinn fullur skólastyrkur við nám í Bandaríkjunum.

Árið 2003 varð Katrín Sveina Björnsdóttir Íslandsmeistari í höggleik í flokki stúlkna 14-16 ára og árið 2004 varð Oddur Valsson Íslandsmeistari í holukeppni unglinga. Síðan þá hafa ungmenni sem keppa undir merkjum GSS ekki náð þeim árangri að komast á efsta pall í Íslandsmótum, en mörg hver hafa þau staðið sig með miklum ágætum. Þó má nefna að Einar Haukur Óskarsson varð Íslandsmeistari fullorðinna í holukeppni árið 2012. Hann hóf golfiðkun á Sauðárkróki en var í Golfklúbbnum Keili þegar hann varð Íslandsmeistari.

Árið 2000 var Mark Nolan golfkennari á Sauðárkróki og árið 2001 tók Óli Barðdal við þjálfun barna- og unglinga á Sauðárkróki og kenndi ásamt systur sinni Sesselju Barðdal í þrjú sumur en þá sigldi Óli til Danmerkur að fullnuma sig í golfkennslufræðum og kennir nú golf í því flata landi. Árið 2004 tók Gunnlaugur Hafsteinn Elsuson við og kenndi í fjögur ár og flutti þá til Reykjavíkur. Naut Gunnlaugur aðstoðar Katrínar Sveinu systur sinnar við kennsluna. Ólafur Auðunn Gylfason kenndi í tvö ár, uns hann varð þjálfari hjá Golfklúbbi Akureyrar og árið 2010 kom Örn Sölvi Halldórsson klúbbnum til bjargar þegar hvorki gekk né rak að finna menntaðan golfkennara og kenndi golf í hjáverkum. Golfkennararnir Richard Hughes, Thomas Olsen og Mark Irwing voru sinn hvert árið 2011 til 2013. Jón Þorsteinn Hjartarson kenndi á árunum 2015 til 2016. Frá árinu 2016 hafa þeir Arnar Geir Hjartarsson og Atli Freyr Rafnsson haft veg og vanda að kennslu ungmenna en Árný Lilja Árnadóttir haldið nýliðanámskeið í samstarfi við þá Arnar og Atla. Á sama tíma hefur golfkennarinn John Garner komið reglulega á Sauðárkrók og kennt á stuttum námskeiðum fyrir börn og einnig boðið upp á kennslu fyrir fullorðna og síðustu ár hefur Óli Bardal komið í heimsókn og haldið námskeið fyrir klúbbmeðlimi.

Má segja að þrátt fyrir að eftir tíma Árna Jónssonar hafi ráðist til klúbbsins góðir þjálfarar, þá höfðu þeir ekki nauðsynlegan tíma til að sinna uppbyggingunni með þeim hætti og var áður. Einnig eru aðrir þættir sem vert er að taka með í reikninginn. Í upphafi 10 áratugarins hafði klúbburinn þokkalega inniaðstöðu í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki en varð frá að hverfa árið 1998. Á móti kom að á þessum tíma var byggt upp gott æfingasvæði á golfvellinum, sem nýtist þó aðeins um sumartímann. Aðstaða til inniæfinga fékkst loks árið 2012 þegar keypt var skemma í iðnaðarhverfinu á Sauðárkróki þar sem lagt var pútt og vippaðstaða auk þess sem sérstakt félag keypti golfhermi. Inniaðstaðan mun hafa mikil áhrif á starfsemi klúbbsins og gefur kylfingum kost á að æfa allt árið um kring.

Klúbburinn hefur undanfarin ár staðið fyrir unglingamótum. Prentsmiðjan Nýprent hefur stutt dyggilega við unglingastarfið með stuðningi við Nýprent open sem haldið hefur verið árlega frá 2006. Þar er börnum og unglingum boðið að koma og keppa við jafnaldra sína á Norðurlandi. Segja má að Nýprent open hafi leitt af sér mótaröð ungmenna á Norðurlandi þar sem haldin eru nokkur golfmót árlega á ólíkum völlum, þar sem keppt er um Norðurlandameistaratitla ólíkum aldursflokkum. Samstarf milli golfklúbbanna á Norðurlandi hefur aukist á síðustu árum og er Norðurlandsmótaröðin dæmi um slíkt samstarf.

Sveitir fullorðinna frá GSS hefa tekið þátt í Islandsmótum allt frá því um miðjan 9. áratug 20. aldar og oft staðið sig með ágætum. Sveitirnar hafa ávalt verið byggðar upp af heimafólki, sem hefur verið lykilatriði í vali á keppnisliðum. Kvennasveit GSS er nú í fyrstu deild Íslandsmótsins en karlaliðið í þeirri þriðju. Fjölmargir kylfingar hafa keppt fyrir hönd GSS í sveitakeppnum.

Rekstur og umsýsla

Muggur

Rekstur golfvallar, inniaðstöðu og annars félagssvæðis er verulega kostnaðarsamur. Í raun er rekstur GSS sambærilegur við lítið fyrirtæki. Talsverður fjöldi starfsfólks starfar fyrir klúbbinn. Stór hluti kostnaðar við starfsemina er greiddur af félagsmönnum með félagsgjöldum en einnig hefur klúbburinn notið velvildar fyrirtækja og sveitarfélagsins Sauðárkróks í upphafi og síðar Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Vallarstjóri og hans aðstoðarmenn vinna kraftaverk á hverju ári við að gera völlinn eins góðan og völ er á. Guðmundur Þór Árnason vallarstjóri hefur gegnt því starfi í um tvo áratugi. Er óhætt að fullyrða að ráðning hans hafi sannarlega verið happafengur fyrir klúbbinn, enda er hann vakinn og sofinn við að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem að starfinu snúa. Ráðnir hafa verið aðstoðarmenn árlega til að aðstoða Guðmund, en auk umsýslu vallarins hefur klúbburinn séð um slátt á opnum svæðum á Sauðárkróki og íþróttavöllum.  Hefur klúbburinn notið stuðnings sveitarfélagsins þegar kemur að ráðningu ungmenna til að aðstoða við vallarumsjón. Ýmis vandamál blasa við vallarstjóra og hans fólki. Á þurrkárum er viðvarandi vatnsskortur á vellinum og ef vetur eru óhagstæðir er hætt við kali á brautum og flötum vallarins. Að sumu leyti má segja að staðsetning vallarins sé ekki með öllu heppileg, einkum með tilliti til veðurlags en ekki verður á allt kosið og staðsetningin og það mikla landssvæði sem klúbburinn hefur til umráða auðveldar einnig starfsemina og gerir völlinn að mörgu leyti einn skemmtilegasta golfvöll landsins.

Golfskáli GSS er opinn á sumrin og hafa verið ráðnir starfsmenn til að sjá um rekstur veitingasölu en einnig hafa félagsmenn lagt hönd á plóg og staðið vaktir við veitingasölu. Fjöldi gesta á vellinum styðja einnig við bakið á þjónustufyrirtækjum í Skagafirði, hvort sem um er að ræða veitingastaði, gististaði eða verslanir. Mikið sjálfboðaliðastarf er unnið í vegna unglingastarfsins, trjáplöntunar og stærri verkefna á vallarsvæðinu, sem hafa verið unnið í samstarfi félagsmanna og starfsmanna. Sjálboðaliðastarfið hefur alltaf verið aðalsmerki klúbbins og á þeim 50 árum sem klúbburinn hefur starfað hafa fjölmargir komið að starfi hans og er útlilokað að telja þá alla upp sem lögðu lífið og sálina í að skapa sér leikaðstöðu á Nöfunum fyrir ofan Sauðárkrók. Hlíðerndi er lang stærsta íþróttasvæði Skagafjarðar og er í sjálfu sér orðin gróðurperla sem allir geta notið, hvort sem þeir eru kylfingar eður ei. Nú eru félagsmenn GSS um 160 og árlega koma fjölmargir gestir til Sauðárkróks að spila þennan krefjandi og skemmtilega golfvöll. Það er því skiljanlegt að Hlíðarendavöllur er stolt félagsmanna, enda er þetta þeirra völllur, sem þeir hafa sjálfir lagt sitt af morkum til að gera það sem hann er í dag.

Því er hins vegar ekki að leyna að rekstur klúbbsins hefur oft verið erfiður. Vélakaup eru sérstaklega kostnaðarsöm, enda þarf talsvert af tækjum til að sýsla um svo stórt íþróttasvæði. Þó hefur tekist að reka klúbbinn og byggja hann upp með samstilltu átaki en einnig með stuðningi opinberra aðila, bæði ríkisins, en íþróttasjóður studdi við uppbyggingu vallarins í upphafi og síðan með aðstoð Sauðárkróksbæjar og síðar Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Þá hefur klúbburinn leitað til fyrirtækja sem mörg hver hafa stutt dyggilega við rekstur klúbbsins. Það má því segja að uppbygging og rekstur golfvallar í hæsta gæðaflokki sé sameiginlegt átak samfélagsins alls. Það verður enda seint metið til fjár hversu mikilvægt það er hverju samfélagi að eiga gott íþróttasvæði eins og Hlíðarendavöll.  Möguleikinn til að stunda áhugamál sín er eitt af því sem hefur úrslita áhrif á hvar fólk velur sér búsetu. Möguleiki barna á að stunda íþróttir skipta þar miklu máli en golf er jú fyrir alla, hvort sem þeir eru börn að aldri eða komnir á efri ár og þessi íþrótt er vissulega mikilvæg fyrir heilsu þeirra sem hana stunda og skapar hún þannig okkur öllum arð, þó hann sé ekki endilega metinn til fjár.

Flöt 3 á Hlíðarendavelli

Golfklúbbur Sauðárkróks, sem nú heitir reyndar Golfkúbbur Skagafjarðar eftir nafnbreytingu árið 2019 býr við aðra aðstöðu en stærstu golfklúbbar landsins. Félagafjöldi þeirra er margfaldur á við GSS og rekstrartekjur þar af leiðandi miklu meiri. Draumar hafa verið uppi um margvísleg framtíðaráform, meðal annars um stækkun vallarins, byggingu nýs golfskála og æfingaraðstöðu. Allt þetta kostar hins vegar mikið fé og klúbburinn sjálfur getur ekki af sjálfsdáðum lagt í verulegar fjárfestingar. Hagsmunir samfélagsins að eiga golfvöll sem stenst samanburð við velli stærstu klúbba landsins eru miklir. Fjöldi ferðamanna leggur árlega leið sína til Skagafjarðrar til að spila golf og þeir skilja eftir umtalsverða fjármuni í samfélaginu. Þá er góð golfaðstaða mikilvægt lýðheilsumál og fyrir marga er golfvöllur einfaldlega forsenda fyrir búsetuvali, enda er golf vinsælasta íþrótt á Íslandi ef taldir eru fullorðnir iðkendur og sú önnur stærsta ef miðað er við alla iðkendur en yfir 21.000 iðkendur eru skráðir í golfklúbba á Íslandi (Tölur frá ÍSÍ 2019).

Félagatal GSS

Uppbygging golfklúbbs á Sauðárkróki hefur verið byggð upp með gríðarlegu sjálfboðaliðastarfi. Óhætt er að segja að enginn sjái eftir þeim ómældu stundum sem þeir nýttu við uppbygginguna heldur eru stoltir af því að hafa fengið að taka þátt í skemmtilegu verkefni í frábærum félagsskap. Megi svo vera um langa tíð. 

Félagar í GSS að loknu meistaramóti 2019

Uppfært í júní 2020 – KBH