Lög Golfklúbbs Skagafjarðar

1. grein

Félagið heitir Golfklúbbur SKagafjarðar. Heimilifang klúbbsins er á Hlíðarenda, Sauðárkróki. Tilgangur og markmið klúbbsins er að glæða og viðhalda áhuga á golfíþróttinni á félagssvæðinu. Klúbburinn á og rekur golfvöll og golfskála og stendur fyrir golfæfingum, golfmótum og annarri félagsstarfsemi sem tengist íþróttinni. Klúbburinn er aðili að GSÍ og Ungmennasambandi Skagafjarðar.

2. grein

Við golfleik skal á svæði/velli félagsins fara eftir St. Andrews golfreglum, eins og þær eru á hverjum tíma. Staðarreglur setur stjórnin eftir því sem henni þurfa þykir. Sérhverjum félaga ber skylda til að hlíta þeim reglum, sem settar verða um leik, umferð og umgengni á golfvellinum og um alla skála klúbbsins. Brot á þessari reglu getur varðað brottvísun úr klúbbnum.

3. grein

Félagið er öllum opið. Aðalfundi er heimilt að kjósa heiðursfélaga. Heiðursfélagi greiðir ekki árgjald.

4. grein

Aðalfundur ákveður árgjald næsta starfsárs að fenginni tillögu stjórnar. Árgjöld eru innheimt eftir sérstökum reglum er aðalfundur samþykkir hverju sinni. Þeir sem ekki standa í skilum með árgjöld sín hafa fyrirgert rétti sínum sem félagar klúbbsins og fá m.a. ekki að taka þátt í keppni, fyrr en gjaldið hefur verið greitt eða samið um greiðslu þess. Hafi félagi ekki staðið skil á gjöldum sínum um áramót, er stjórn heimilt að strika hann út af félagaskrá. Úrsögn er annars bundin við áramót enda berist hún skriflega til ritara fyrir lok desember.

5. grein

Stjórnin ákveður vallargjald utanfélagsmanna. Hún skal að jafnaði leita eftir gagnkvæmum ókeypis aðgangi að völlum annara klúbba og auglýsa þau sambönd rækilega.

6. grein

Stjórn klúbbsins skipa átta einstaklingar: Formaður, ritari, gjaldkeri, varaformaður og formenn mótanefndar, vallarnefndar, barna- og unglinganefndar og kynningar- og nýliðanefndar. Þeir eru kosnir á aðalfundi, formaður til eins árs í senn en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára í senn, fjórir á aðalfundi 2020, þrír á aðalfundi 2021. Einnig skal kjósa þrjá varamenn í stjórn til eins árs í senn. Fráfarandi stjórn sér um undirbúning kosninga. Ekki eru takmörk á því hversu oft má kjósa sama einstakling til setu í stjórn.

7. grein

Stjórn ákveður sjálf starfstilhögun sína. Hún getur ráðið sér launaða aðstoð og fær bein útgjöld greidd út félagssjóði en starfar sjálf launalaust. Stjórn kemur fram fyrir hönd klúbbsins í fullu umboði hans í öllum málum sem hann varða. Þó þarf samþykkt félags- eða aðalfundar til stórra ákvarðana, sem geta haft mikil fjárútlát í för með sér.
Stjórn skal boða til félagsfundar með sama hætti og til aðalfundar ef 15% félagsmanna krefjast þess skriflega eða á annan sannanlegan hátt. Berist krafa um boðun félagsfundar skal hann haldinn innan sjö daga frá því að slík krafa berst.
Stjórn getur tilnefnt heiðursfélaga ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, enda fái hún fundarsamþykkt fyrir því. Stjórn skal rækta samband við klúbbfélaga og kynna þeim mikilsverð mál er varða starfsemi klúbbsins á félagsfundum, eða með öðrum tiltækum hætti.

8. grein

Á vegum stjórnar skulu að jafnaði starfa eftirtaldar nefndir: Mótanefnd, vallarnefnd, forgjafarnefnd, aganefnd, barna- og unglinganefnd og kynningar- og nýliðanefnd. Í hverri þessara nefnda skulu að jafnaði vera þrír til fimm einstaklingar, tilnefndir eða kosnir á aðalfundi. Fjórar fyrst töldu nefndirnar starfa skv. reglum GSÍ en aðrar samkvæmt fyrirmælum stjórnar og/eða aðalfundar. Stjórn hefur heimild til að skipa aðrar nefndir eins og henta þykir. Nefndir skulu skila stjórn yfirliti yfir störf liðins starfárs eigi síðar en 30. október ár hvert.

9. grein

Aðalfund skal halda í nóvember ár hvert. Til hans skal boðað skriflega, eða á annan hátt sem stjórnin telur fullnægjandi. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist til stjórnar klúbbsins fyrir 1. nóvember ár hvert. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá. Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum klúbbsins.

10. grein

Reikningsár klúbbsins er 1.nóvember til 31.október. Endurskoðaðir reikningar klúbbsins skulu lagðir fyrir aðalfund til samþykktar.

11. grein

Þessi eru störf reglulegs aðalfundar:

1.            Skýrsla stjórnar og nefnda

2.            Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.

3.            Lagabreytingar.

4.            Kosning stjórnar og varamanna.

5.            Kosning í aðrar nefndir samanber 8. grein.

6.            Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og tveir til vara.

7.            Kosning fulltrúa á Golfþing GSÍ og þing UMSS

8.            Ákvörðun félagsgjalda

9.            Önnur mál.

12. grein

Aðalfundur er löglegur og ályktunarhæfur um öll málefni klúbbsins sé löglega til hans boðað. Afl atkvæða ræður úrslitum á fundum. Atkvæðarétt hafa þeir félagar, sem náð hafa 16 ára aldri. 2/3 hluta atkvæða þarf til þess að samþykkja breytingar á lögum.

13. grein

Sérstakur fundur þarf að ákveða hvort klúbburin hætti starfi. Til þess að slík ákvörðun teljist lögmæt þurfa 2/3 hlutar félagsmanna að vera á fundi og 2/3 hlutar viðstaddra að samþykkja tillögu þess efnis. Sé þátttaka ekki næg má boða til nýs fundar inna 3ja vikna og er hann ályktunarhæfur um þetta mál sé hann löglega boðaður enda þótt fyrrgreindri fundarþátttöku sé ekki náð.

Þannig samþykkt á aðalfundi 30.nóvember 2020.