Category: Fréttir

Jóhann Örn og Anna Karen Klúbbmeistarar GSS 2025

Meistaramót GSS 2025 fór fram dagana 7.-12. júlí á Hlíðarendavelli. Metþátttaka var í meistaramótinu en 30% klúbbfélaga voru skráðir til leiks eða samtals 103 kylfingar. Meistaramótið er fyrir alla félagsmenn GSS, flokkar við allra hæfi. Í barna og unglingaflokkum voru 29 þátttakendur sem léku í 4 flokkum en þátttakendur í fullorðinsflokkum voru 74 sem léku í 8 flokkum. Meistaramótsvikan er ein skemmtilegasta vika golfsumarsins þar sem völlurinn iðar af lífi og fjöri. Aðstæður á Hlíðarendavelli voru  prýðilegar alla leikdagana. Keppnin var að vanda æsispennandi og voru úrslit í mörgum flokkum ekki að ráðast fyrr en á síðustu holunum á lokadegi. Leika þurfti einn bráðabana til að skera úr um lokaúrslit. Lokahóf fullorðinsflokka fór fram í Ljósheimum á laugardagskvöldið þar sem kylfingar áttu saman góða kvöldstund og verðlaun voru afhent. 

Klúbbmeistarar GSS 2025 eru Jóhann Örn Bjarkason og Anna Karen Hjartardóttir en þau áttu bæði titil að verja. Jóhann Örn er klúbbmeistari í áttunda sinn en hann hefur verið klúbbmeistari árin 2002, 2003, 2004, 2005, 2010, 2011 og 2024.  Anna Karen er klúbbmeistari í sjötta sinn í röð en hún varð fyrst klúbbmeistari árið 2020 og hefur náð að verja titilinn síðan. 

Úrslit meistaramóts GSS 2025 í flokkum fullorðinna eru eftirfarandi:

Meistaraflokkur karla – 72 holu höggleikur án forgjafar (hvítir teigar)

  1. Jóhann Örn Bjarkason, 317 högg
  2. Hákon Ingi Rafnsson, 320 högg
  3. Ingvi Þór Óskarsson, 336 högg

Meistaraflokkur kvenna – 72 holu höggleikur án forgjafar (bláir teigar)

  1. Anna Karen Hjartardóttir, 324 högg
  2. Dabjört Sísí Einarsdóttir, 340 högg
  3. Gígja Rós Bjarnadóttir, 349 högg

Fyrsti flokkur karla – 72 holu höggleikur án forgjafar (gulir teigar)

  1. Brynjar Morgan Brynjarsson, 345 högg
  2. Friðjón Bjarnason, 347 högg
  3. Þórður Ingi Pálmarsson, 348 högg

Fyrsti flokkur kvenna – 72 holu höggleikur án forgjafar (rauðir teigar)

  1. Sylvía Dögg Gunnarsdóttir, 401 högg
  2. Margrét Helga Hallsdóttir, 403 högg
  3. Aldís Hilmarsdóttir, 435 högg

Annar flokkur karla – 54 holu höggleikur án forgjafar (gulir teigar)

  1. Unnar Bjarki Egilsson, 283 högg
  2. Axel Arnarson, 300 högg
  3. Reynir Bjarkan Róbertsson, 302 högg

Annar flokkur kvenna – 54 holu höggleikur án forgjafar (rauðir teigar)

  1. Helga Jónína Guðmundsdóttir, 322 högg (að loknum bráðabana)
  2. Hanna Dóra Björnsdóttir, 322 högg
  3. Hafdís Skarphéðinsdóttir, 330 högg

Öldungaflokkur – 27 holu höggleikur með forgjöf

  1. Herdís Ásu Sæmundardóttir, 113 högg nettó
  2. Guðrún Björg Guðmundsdóttir, 119 högg nettó
  3. Guðmundur Helgi Kristjánsson, 120 högg nettó

Háforgjafaflokkur – 18 holu punktakeppni með forgjöf

  1. Birkir Fannar Gunnlaugsson, 39 punktar
  2. Sigrún Ólafsdóttir, 36 punktar
  3. Hjörtur Ragnarsson, 36 punktar

Categories: Fréttir

Júní Mánuður á Hlíðarendavelli

Júní er búin að vera annaríkur mánuður hjá okkur í GSS. Eftir vetrarvikuna miklu þar sem snjóbreiðan lá yfir vellinum, þá keyrðum við starfsemina okkar í gang. Atli Freyr Rafnsson, aðalþjálfari GSS, hóf barnastarfið og eru um 50 krakkar á öllum aldri að æfa hér á hverjum degi. Með honum starfa aðstoðaþjálfararnir Gígja Rós, Dagbjört Sísí, Brynjar Morgan, Gunnar Atli, og Sigurbjörn Darri.

Ungu kylfingarnir okkar eru svo sannarlega efnilegir og sendum við fjögur lið í sveitakeppni í mánuðinum. Fyrst sendum við tvær sveitir í 12 ára og yngri sveitakeppnina sem haldin var í Reykjavík. Í hvítu sveitinni voru þau Ólafur Bjarni, Karl Goðdal, Nína Morgan, og Björn Henrý. Þau kepptu i efstu deildinni og stóðu sig glæsilega og enduðu í þriðja sæti. Græna sveitin stóð sig ekki síður, en þau Nína Júlía, Arnór Tryggvi, Bergdís Birna, og Daníel Smári gerðu sér lítið fyrir og sigruðu þriðju deildina. Svakalega flottur árangur hjá liðunum okkar.

Græna og hvíta sveitin ásamt þjálfara Atla Frey

Vikuna eftir héldu tvær sveitir í viðbót í sveitakeppni. Gígja Rós og Dagbjört Sísí voru í sameinaðri sveit GSS og Leyni og spiluðu með liðsfélögum sínum á Hellu í sveitakeppni 18 ára og yngri stúlkna. Á sama tíma héldu þeir Brynjar Morgan, Gunnar Atli, Sigurbjörn Darri, Víkingur Týr, og Grétar Freyr í sveitakeppni 14 ára og yngri drengja í Sandgerði. Bæði lið stóðu sig afskaplega vel og mega vera stolt af sínum árangri. Drengirnir lentu í 6 sæti eftir glæsilega spilamennsku og einnig lenti Brynjar Morgan í 5 sæti í höggleiknum sem var leikin fyrsta daginn, aðeins 3 höggum frá fyrsta sæti. Stelpurnar stóðu sig með glæsibrag og enduðu í 7. sæti.

14 ára og yngri sveitin ásamt Atla Frey þjálfara
Gígja Rós og Dagbjört Sísí ásamt liðsfélögunum sínum frá Leyni

Mótastarfsemi fór svo í gang með stæl en í júní voru ekki meira né minna en 4 opin mót haldin. Við byrjuðum á Opna KS mótinu sem er spilað í Texas Scramble stíl. Svo kom árlega FISK mótið sem er afskaplega spennandi, tveggja daga liðsmót sem endar á glæsilegum kvöldverð á Sauðá. Næst var Hlíðarkaupsmótið þar sem keppendum var boðið upp á kaffiveitingar í lok móts. Við enduðum mánuðinn á Kvennamótinu okkar þar sem 55 konur frá klúbbum víða um landið komu og spiluðu hjá okkur. Einnig keyrðum við innanfélagsmótin okkar í gang en það eru Hard Wok Háforgjafamótin og Esju Gæðafæði mótin. Búin að vera topp mæting í báðar mótaraðir og búumst bara við enn betri mætingu með batnandi veðri. Einnig var barna- og unglingastarfið með fyrsta mót sumarsins í Norðurlandsmótaröðinni en það komu hér 60 krakkar frá Dalvík, Ólafsfirðir, Akureyri, Húsavík og af sjálfsögðu frá okkur og kepptu í þeim mismunandi flokkum sem boðið var upp á. Frábær júní mánuður að baki hér á Hlíðarendavelli.

Categories: Fréttir