Rafn Ingi Rafnsson nýr formaður GSS

Aðalfundur Golfklúbbs Sauðárkróks var haldinn í golfskálanum á Hlíðarenda þriðjudaginn 9.desember s.l. Ágæt mæting var á fundinn og voru umræður líflegar og skemmtilegar eins og jafnan er á aðalfundi GSS. Venjuleg aðalfundarstörf voru á fundinum og fluttu formenn nefnda ítarlegar skýrslur. Breytingar urðu einnig á stjórn klúbbsins. Rafn Ingi Rafnsson var kosinn formaður og tekur við af Pétri Friðjónssyni sem gegnt hefur því embætti undanfarin ár. Þú var Magnús Helgason kosinn gjaldkeri og tekur hann við af Ragnheiði Matthíasdóttur.  Fundurinn þakkaði þeim Pétri og Ragnheiði kærlega fyrir störf þeirra í þágu klúbbsins á undanförnum árum. Ný stjórn er því þannig skipuð að Rafn Ingi Rafnsson er formaður, Halldór Halldórsson varaformaður, Magnús Helgason gjaldkeri og Dagbjört Hermundsdóttir ritari. Einnig sitja formenn 3ja nefnda í stjórn. Sigríður Elín Þórðardóttir sem formaður mótanefndar, Rúnar Vífilsson formaður vallarnefndar og Hjörtur Geirmundsson formaður barna-og unglinganefndar.

IMG_9907
Rafn ásamt Árný og Hákoni

Á fundinum var tilkynnt að Arnar Geir Hjartarson hafi verið tilnefndur af Golfklúbbi Sauðárkróks í kjöri til íþróttamanns Skagafjarðar. Þá var afhentur fyrirmyndarbikar GSS sem er farandbikar sem er veittur árlega þeim kylfingi sem þykir hafa verið til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan. Að þessu sinni hlaut Herdís Sæmundardóttir bikarinn.

Ítarlega skýrslu fyrir starfsárið er að finna hér á síðunni.

Golfklúbbur Sauðárkróks Ársskýrsla 2014

Categories: Óflokkað