Flokkur: Óflokkað

Kynningarfundur um stefnu

Kynningarfundur um stefnu og starfsáætlun GSS var haldinn í Fjölbrautaskólanum mánudaginn 18. nóvember. Mæting var góð, full stofa.
Á fundinum var farið yfir stefnu og starfsáætlun næstu árin.

Kynnt var vinna stjórnar við gerð handbókar sem verður kláruð að loknum aðalfundi 2019. Handbókin er ekki síst gagnleg fyrir núverandi og verðandi stjórn og nefndir. Einnig er handbók ein af forsendum þess að GSS geti orðið fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Drög að handbókinni er að finna á heimasíðunni og verður fullkláruð handbók einnig sett á heimasíðuna.

Barna- og unglingastarf
Eitt af megin markmiðum GSS er að efla barna- og unglingastarf.  Stefnt er að því að börn og unglingar fái aukinn tíma í þjálfun og að þjálfarar klúbbsins starfi undir leiðsögn PGA kennara sem setur upp æfingaáætlun í samráði við barna- og unglinganefnd.  Einnig er stefnt að aukinni þátttöku barna og unglinga í mótum með áherslu á þátttöku í yngri hópum.  Félagslegi hluti starfsins er mikilvægur og er stefnt að blómlegu félagslegu starfi fyrir börn og unglinga. 
Áhersla 2020:  Æfinga- og skemmtiferð til Danmerkur. 

Mótahald
Stefnt er á að halda árlega a.m.k. 6 opin mót og yfir 20 innanfélagsmót.  Starfa með UMSS að landsmótum.
Áhersla 2020:   Halda veglegt afmælismót GSS.  Þegar hefur verið óskað eftir að halda Íslandsmót karla, 3. deild árið 2020.

Kynning og nýliðun
Nýliðanámskeiðum verður haldið áfram enda hafa þau tekist afar vel.  Áfram verða vanur/óvanur mót eftir nýliðanámskeið og reynt verður að fjölga gullteigamótum.  Heimasíða verður notuð til upplýsingar fyrir félaga og kynningar fyrir áhugasama.  Reynt verður að virkja nýbúa til þátttöku í golfi, með sérstökum kynningum.  Stefnt er að því að stofna púttdeild innan klúbbsins með áherslu á þátttöku fólks 70 ára eða eldri. 
Áhersla 2020:  Gefið verður út afmælisrit GSS í tilefni 50 ára afmælis.  Fá umfjöllun í Golf á Íslandi og á N4.  Rita greinar í Feyki.

Golfskálinn
Stjórn GSS hefur hug á að taka upp viðræður um byggingu fjölnota húsnæðis.  Viðræður við Sveitarfélagið Skagafjörð og ýmsa hagsmunaaðila, t.d. ferðaaðila,  aðildarfélög UMSS og ýmsa aðra klúbba um byggingu fjölnota húsnæðis sem rúmar funda-, veitinga og skrifstofuaðstöðu.  Það er ljóst að slík framkvæmd er ekki á færi golfklúbbsins eins og því þarf að fá fleiri að hugmyndavinnu vegna byggingar slíks fjölnota skála. 
Áhersla 2020:  Hefja viðræður við hagsmunaaðila um framtíð golfskála eða fjölnota húsnæðis á Hlíðarenda. Skipta um borð og stóla í núverandi skála.

Inniaðstaða til þjálfunar
Inniaðstaðan er í Borgarflöt 2a. Verulegar breytingar hafa orðið á golfþjálfun og golfiðkun undanfarin ár.  Golf er iðkað allt árið með tilkomu golfherma sem gegna lykilhlutverki í að veita endurgjöf sem nauðsynleg er fyrir framfarir.  Golfhermar taka upp sveiflu og veita mikilvægar upplýsingar um sveifluna.  Hermarnir gera einnig kleift að senda gögn til PGA þjálfara til greiningar.  Til að GSS sé í takt við tímann í golfþjálfun er nauðsynlegt að fjárfesta í golfhermi.
Áhersla árið 2020:  Leitað verður styrkja til að fjármagna kaup á Trackman golfhermi.  
Inniæfingar/námskeið fyrir fullorðna í febrúar – mars: „Æfum saman“.

Hlíðarendavöllur
Hlíðarendavöllur fær einróma lof þeirra sem hann sækja.  Staðsetning vallarins er góð, í göngufæri frá íbúðabyggð og tjaldstæðum bæjarins sem hefur marga augljósa kosti.  Völlurinn er stór, á um 29 hektara svæði.  Það krefst vinnu að viðhalda vellinum og bæta.  Sett hefur verið fram 5 ára áætlun um endurbætur á vellinum þar sem margir liðir koma til framkvæmda á árinu 2020. 
Áherslur næstu ára: Sjá útfærslu í handbók.

Categories: Óflokkað

Holukeppnismeistari og lokamót sumarsins

Núna þegar farið er að hausta er ekki úr vegi að fara yfir starfið undanfarnar vikur.

Úrslitin í holukeppni réðust í lok ágúst og var það Rafn Ingi Rafnsson sem er holukeppnismeistari GSS árið 2019. Hann hafði betur í spennandi leik á móti Telmu Ösp Einarsdóttur. Holukeppnin er afar skemmtilegt fyrirkomulag þar sem allir hafa jafna möguleika þar sem full forgjöf er tekin inn í spilið.

Opna Advania var haldið 1. september.  Skemmtilegt mót þar sem fyrirkomulagið var betri bolti.   Sigurvegarar voru þau  Telma Ösp Einarsdóttir og Hjörtur Geirmundsson. 

Advania er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa staðið með okkur að mótahaldi í sumar.  Við í GSS erum afar þakklátt þeim fyrirtækjum sem styrkja okkur með einum eða öðrum hætti.

Barna- og unglingastarfið hefur verið öflugt í sumar.  

Farið var í vel heppnaða skemmtiferð til Akureyrar þann 6. september þar sem börn og foreldrar skelltu sér á skauta, í sund og svo var Pizzuhlaðborð. 
Almenn ánægja var með ferðina og gaman þegar farið er í svona ferðir til að efla andann.

Síðasta mótið í Norðurlandsmótaröðinni var þann 15. september.  GSS átti samtals 9 keppendur á lokamótinu á Akureyri en í mótaröðinni í heild í sumar áttum við 18 þátttakendur.
Keppendur GSS röðuðu sér í verðlaunasæti á lokamótinu:  Telma Ösp var efst í flokki 18-21 árs stúlkna, Hildur Heba Einarsdóttir var í öðru sæti í flokki 15 – 17 ára stúlkna, Anna Karen Hjartardóttir var í öðru sæti í flokki stúlkna 14 ára og yngri. 

Heildarkeppnin kallast Norðurlandsmeistarinn.  Þá er tekin saman besti samanlagður árangur á 3 mótum í sumar, reiknuð stig fyrir hvert sæti. Klúbburinn eignaðist tvo Norðurlandsmeistara þetta árið. Telma Ösp Einarsdóttir varð stigameistari í flokki 18-21 árs stúlka og Anna Karen Hjartardóttir í flokki 14 ára og yngri þar sem hún deildi stigameistaratitlinum með Köru Líf Antonsdóttur úr GA. Hildur Heba Einarsdóttir í 2 sæti í stúlknaflokknum 15-17 ára og Una Karen Guðmundsdóttir var í 3. sæti í sama stúlknaflokki, þ.e. 14 ára og yngri.   Í ár voru það bara stelpurnar okkar sem náðu á pall í heildar mótaröðinni.  Strákarnir voru samt nokkrir nálægt því .

Categories: Óflokkað

Karlasveit GSS keppir í 3.deild um næstu helgi

Næstu helgi, nánar tiltekið 16-18 ágúst n.k. tekur karlasveit GSS þátt í Íslandsmóti golfklúbba í 3.deild. Keppt verður hjá Golfklúbbi Grindavíkur.

Sveitin hefur verið valin er hana skipa:

Arnar Geir Hjartarson

Brynjar Örn Guðmundsson

Elvar Ingi Hjartarson

Hákon Ingi Rafnsson

Ingvi Þór Óskarsson

Jóhann Örn Bjarkason

Liðsstjóri: Hjörtur Geirmundsson

Categories: Óflokkað