JÓMFRÚARMÓTI ER FRESTAÐ!

Vegna veðurs og aðstæðna á Hlíðarendavelli hefur Jómfrúarmótinu, sem átti að vera Laugardaginn 8 júní, verið frestað. Mótarnefnd mun uppfæra Golfboxið og láta vita um leið og ný dagsetning hefur verið ákveðin.

Categories: Óflokkað

Tveir LaaLaa Sigra KS Mótið 2024

Laugardaginn 1 júní var árlega KS mótið haldið á Hlíðarendavelli þar sem tveir keppendur mynda lið og keppa saman í Texas Scramble stíl. Alls tóku þátt 48 keppendur í 24 liðum, þar á meðal 14 keppendur frá öðrum klúbbum sem voru meðal annars Golfklúbbur Siglufjarðar, Golfklúbbur Suðurnesja, Golfklúbbur Fjallbyggðar, Golfklúbbur Hamar Dalvík, og Golfklúbbur Setberg. Keppendur upplifðu allar árstíðarnar á meðan mótinu stóð þar sem sól, vindur, rigning, og snjór skiptust á að gera vart við sig á vellinum.

Í 5. sæti var liðið Bjarnarson/Aðalsteinsdóttir sem voru á 66 höggum nettó. Í því liði voru þau Friðjón Bjarnason og Auður Aðalsteinsdóttir. 4-2 sæti voru öll með 65 högg nettó. 4. sætið tók liðið Harris með þeim Gunnlaug Stefán Guðleifssyni og Benedikt Þorsteinssyni. 3. sætið tók liðið Gamla Settið með þeim Sigríði Ingvarsdóttur og Daníel Gunnarssyni. 2. sætið tóku þeir Óskar Karel Snæþórsson og Snæþór Vernharðsson í liðinu Tengdir.

Að lokum, á 62 höggum nettó tóku þeir Ragnar Ágústsson og Markús Máni Gröndal 1. sætið í liðinu Tveir LaaLaa.

Í mótinu voru þó fjölmörg lið með skemmtileg og frumleg liðsnöfn og því vil undirskrifuð nefna topp 3 frumlegustu og skemmtilegustu liðsnöfnin (að hennar mati): 3. Móafarar, með Haraldri Friðriksyni og Guðmundi Ragnarssyni. 2. Hetjur Hafsins með Helgu Jónínu Guðmundóttur og Guðmundi Ágúst Guðmundssyni. 1. Hvolpasveitin með Hannesi Inga Mássyni og Róbert Óttarssyni.

Við þökkum öllum þeim sem komu og byrjuðu golfsumarið með stæl með okkur í GSS!

Tveir LaaLaa taka við verðlaunum fyrir fyrsta sætið frá mótarnefnd.
Tengdir aka við verðlaunum fyrir annað sætið frá mótarnefnd.
Gamla Settið taka við verðlaunum fyrir þriðja sætið frá mótarnefnd.
Harris aka við verðlaunum fyrir fjórða sætið frá mótarnefnd.
Bjarnarson/Aðalsteinsdóttir taka við verðlaunum fyrir fimmta sætið frá mótarnefnd.

Categories: Óflokkað

Meistaramót GSS 2023

5.júlí-8.júlí hélt GSS sitt árlega meistaramót fullorðna. 43 klúbbmeðlimir kepptu í 5 mismunandi flokkum; Meistaraflokk karla og kvenna, 1. flokk karla og kvenna, 2. flokkk karla, öldungaflokk, og háforgjafaflokk. Keppendur þoldu rigningu, rok, og svakalegan kulda fyrstu þrjá dagana, en sólin lét loksins sjá sig á lokadeginum og var stuð og fjör á Hlíðarenda þegar keppendur kláruðu sínar seinustu holur.

Meistaraflokkur karla var afskaplega spennandi og skiptust Jóhann Örn Bjarkason og Arnar Geir Hjartason á forustunni alveg þangað til á seinustu holu á laugardaginn þar sem Arnar átti glæsilegt inná högg í öðru höggi og setti niður pútt fyrir fuglinum og varði því klúbbmeistaratitilinn sem hann hefur unnið núna 10 sinnum í röð, 11 sinnum í heildina. Arnar endaði mótið á 315 höggum. Jóhann tók annað sætið á 319 höggum og Hákon Ingi Rafnsson tók 3 sætið á 323 höggum.

Topp 3 sætin í Mfl Karla: Hákon Ingi Rafnsson, Arnar Geir Hjartarson og Jóhann Örn Bjarkason.

Klúbbmeistaratitillinn í meistaraflokki kvenna fór örugglega aftur í hendurnar á Önnu Karen Hjartardóttur, sem tók hann í fjórða sinn í röð. Hún endaði mótið á 322 höggum. Annað sætið tók Una Karen Guðmundsdóttir á 349 höggum og þriðja sætið tók hún Hildur Heba Einarsdóttir á 353 höggum.

Topp sætin í Mfl Kvenna: Una Karen, Anna Karen, og Hildur Heba.

Fyrsti flokkur karla endaði á að vera mest spennandi flokkurinn en þrír voru jafnir eftir seinustu holuna og þurftu að fara í bráðabana. Friðjón Bjarnason, Þórður Ingi Pálmarsson, og Hjörtur S. Geirmundsson voru jafnir með 359 högg og spiluðu þrjár holur aukalega í bráðarbana þar sem Friðjón endaði á að taka fyrsta sætið. Þórður endaði í öðru sæti og svo tók Hjörtur þriðja sætið. Frábær frammistaða hjá öllum þrem og æðislegt fyrir áhorfendur að fá að fylgjast með svona spennandi keppni.

Annað og þriðja sætið í 1. flokk karla: Þórður Ingi og Hjörtur S.

Fyrsti flokkur kvenna var ekki alveg jafn spennandi en Sylvía Dögg Gunnarsdóttir tók sigurinn örugglega á 400 höggum slétt. Hörð barátta var þó um annað og þriðja sætið. Annað sætið endaði hjá Hafdísi Skarphéðinsdóttur sem fór á 417 höggum og þriðja sætið tók Aldís Hilmarsdóttir á 423 höggum.

Topp sætin í 1. flokk kvenna: Hafdís, Sylvía Dögg. og Aldís.

Sigurinn í öðrum flokk for líka frekar örugglega í hendurnar á Ragnari Ágústssyni sem endaði á 404 höggum. Pétur Björnsson fylgdi honum í öðru sæti á 467 höggum og Kristinn Brynjólfsson tók þriðja sætið á 519 höggum.

Topp sætin í 2. flokk karla: Pétur, Ragnar, og Kristinn.

Í öldungaflokknum var spennandi barátta á milli Guðrúnar Björg Guðmundsdóttur og Guðna Kristjánsson sem spiluðu höggleik með forgjöf en Guðrún endaði á að taka fyrsta sætið á 113 höggum og Guðni tók annað sæti ekki langt á eftir á 119 höggum.

Topp sætin í öldungaflokknum: Guðrún Björg og Guðni.

Seinast en ekki síst var háforgjafaflokkurinn sem spilaði punktakeppni með forgjöf. Berglind Rós Guðmundsdóttir, sem er ekki nema 13 ára, tók fyrsta sætið með heila 45 punkta. Helga Daníelsdóttir fylgdi fast á eftir í öðru sæti með 40 punkta og Hrefna Gerður Björnsdóttir tók þriðja sætið með 34 punkta. Skemmtilegt er að segja frá því að Hrefna er bara nýbyrjuð í golfi og því frábær árangur hjá henni.

Toppsætin í háforgjafaflokk: Berglind Rós og Hrefna Gerður.

Einnig voru aukaverðlaun á fyrstu 3 dögunum sem voru bæði mismunandi og skemmtileg. Á miðvikudag voru verðlaun fyrir að vera næst holu á flöt í öðru höggi á 5/14 braut sem hann Brynjar Már Guðmundsson tók. Á fimmtudag voru verðlaun fyrir að vera næst holu á flöt í upphafshöggi á 6/15 braut sem hann Ragnar Ágústsson tók. Seinast á föstudeginum voru verðlaun fyrir fæst pútt á 18 holum sem Jóhann Örn Bjarkason tók með aðeins 24 pútt.

Sigurvegarar aukaverðlaunana: Brynjar Már, Ragnar, og Jóhann Örn.

Mótinu lauk svo með lokahófi þar sem var borið fram dýrindis veitingar og verðlaunaafhending fór fram. Glæsileg Meistaramótsvika að baki.

Categories: Óflokkað

Kvennamót GSS 2023- 20 Ára Afmælismót

Laugardaginn 1 júlí var hátíðisdagur hér í Skagafirði því GSS hélt árlega Kvennamótið sitt í tuttugasta skipti. GSS byrjaði að halda Kvennamót árið 2004 til að auka þátttöku kvenna í golfi. Þá var afar fámennt af konum yfirhöfuð í klúbbum landsins en í dag hafa tímarnir breyst og var þetta kvennamót fjölmennasta mót GSS í langan tíma, með 62 konur í þáttöku. Dagurinn var fullur af þakklæti, kærleika, samstöðu og vináttu.

Það voru tugi styrktaraðila sem lögðu sitt af mörkum og það er þeim að þakka að allar konur í mótinu fóru heim með veglegan vinning. Það voru skemmtileg aukaverðlaun í boði en á 9/18 braut voru verðlaun fyrir að vera næst miðju og það tók hún Lovísa Erlendsdóttir sem gerði sér lítið um og lenti beint á línunni. Það voru nokkrar ansi óheppnar að lenda í vatninu á 2 braut en það borgaði sig nú fyrir Unni Ólöfu og Írisi Baldursdóttur sem fengu verðlaun fyrir flesta bolta í vatninu en það voru tveir hjá þeim báðum. Hekla Kolbrún tók nándarverðlaunin á 5. braut með boltan 4.39m frá og Hrefna Svanlaugsdóttir tók verðlaunin fyrir flestar sexur með heilar sjö sexur á 18 holum.

Hrefna Svanlaugsdóttir tók einnig topp sætið á mótinu með heila 42 punkta. Konurnar í næstu þrem sætum voru allar með 39 punkta en það var Halldóra Andrésdóttir í öðru, Marsibil Sigurðardóttir í þriðja, og Dagný Finnsdóttir í fjórða. Ólína Þórey tók svo fimmta sætið með 38 punkta.

Konurnar í topp 5 sætunum.

Í lok móts var boðið upp á veitingar og hlegið og spjallað þangað til að verðlaunaafhendingunni þar sem allar konur nældu sér í eitthverja skemmtilega vinninga. En þó að dagurinn hafi verið dásamlegur þá minnir hann okkur líka á að það er enþá síffeld barátta fyrir konur í golfi. Enn í dag eru konur ekki teknar eins alvarlega og menn í golfi og menn skipa enþá stórum meirhluta af golfurum. Golf er talin vera með einn af mesta muninum í launum á milli karla og kvenna a öllum íþróttum í heiminum. Til að mynda, í þrem stærstu golfmótum heims, er verðlaunafé karla meira en $1m hærra en verðlaunafé kvenna, en það er jafnt um 135 milljónum íslenskra króna. Við höfum sannarlega komið langt en baráttan er ekki búin. Þessvegna eru þessi kvennamót svo dýrmæt og samstaða kvenna í golfi svo mikilvæg.

Categories: Óflokkað

Opna Hlíðarkaupsmótið

Síðastliðinn laugardag héldum við í GSS okkar árlega Hlíðarkaupsmót. Þáttaka var einstaklega góð og enduðu 55 keppendur á því að taka þátt í mótinu. Keppendur komu frá 10 mismunandi golfklúbbum, þar á meðal frá Golfklúbbi Reykjavíkur, Golfklúbbi Brautarholts, Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, Golfklúbbi Hamar Dalvík, Golfklúbburinn Oddur, Golfklúbbi Akureyrar, og fleiri klúbbum víða um landið.

Keppendur kepptu í frábæru veðri og komu svo inn í vöfflukaffi í boði Hlíðarkaups. Veitt var verðlaun fyrir fyrstu fimm sætin og fengu vinningshafar gjafabréf í Hlíðarkaup. Í 5. sæti var Una Karen Guðmundsdóttir með 40 punkta og rétt á undan einnig með 40 punkta var Magnús Gunnar Gunnarsson. Það var hart barist um 1.-3. sætin enda allir þrír keppendur með 41 punkt. Í 3. sæti endaði Andri Þór Árnason, í 2. sæti var Gestur Sigurjónsson og sigurvegari Opna Hlíðarkaupsmótsins var Guðmundur Ágúst Guðmundsson.

Það voru einnig nándarverðlaun á tveimur holum. Davíð Ingimarsson vann nándarverðlaunin á 3/12 holu og Sigríður Elín Þórðardóttir vann á 6/15. Unnu þau bæði einnig gjafabréf í Hlíðarkaup.

Frábær dagur í geggjuðu veðri í geggjuðum félagsskap!

Frá vinstri til hægri: Sigríður Elín, Magnús Gunnar, Gestur, Andri Þór, Guðmundur Ágúst, Una Karen og Davíð.

Categories: Óflokkað

Blönduð Sveit GSS Tekur Þátt Í Íslandsmóti 21 ára og yngri 2023

Í dag hófst leikur hjá blandaðri sveitinni okkar í Íslandsmóti golfklúbba 21 ára og yngri á Svarfhólsvelli á Selfossi. Þessi hópur mun spila næstu daga fyrir hönd GSS og tekur þátt í í drengjariðlinum ásamt 12 öðrum liðum. Í dag keppa þau í höggleik og verða svo öll liðin raðað í riðla eftir árangri í höggleiknum. Hægt er að fylgjast með þeim á Golf.is.

Gangi ykkur vel krakkar!

Vinstri til hægri: Hildur Heba Einarsdóttir, Anna Karen Hjartardóttir, Tómas Bjarki Guðmundsson, Brynjar Már Guðmundsson, Una Karen Guðmundsdóttir, og þjálfari Atli Freyr Rafnsson.

Categories: Óflokkað

Opna Jómfrúarmótið

Sunnudaginn 11 júní héldum við okkar árlega Jómfrúarmót. Vindurinn var mikill og áttu keppendur erfitt með að fjúka ekki, en þó var frábær þátttaka og mikið skemmt sér. Keppt var í karla og kvennaflokki og veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvor flokkinum. Í karlaflokki var Hjörtur Geirmundsson í 1. sæti, Friðjón Bjarnason í 2. sæti, og Ingvi Þór Óskarsson í 3. sæti. Í kvennaflokki sigraði Una Karen Guðmundsdóttir, í 2. sæti var Margrét Helga Hallsdóttir, og í 3. sæti var Hildur Heba Einarsdóttir. Einnig var veitt heiðursverðlaun í punktakeppni án forgjafar og það vann hann Arnar Geir Hjartarson.

Nándarverðlaun á 6/15 holu vann hann Ingvi Þór Óskarsson og í öðru höggi á 9/18 vann Hákon Ingi Rafnsson.

Frábært að sjá svona góða mætingu á mót í byrjun sumars og lítur allt út fyrir að verði einstaklega gott golfsumar hjá okkur í GSS í ár. Sérstakar þakkir til allra þáttakenda mótsins og til Jómfrúarinnar, styrktaraðila mótsins, fyrir veittan stuðning.

Categories: Óflokkað

Titleist Footjoy Norðurlandsmótaröðin 2023 Nýprent Open

Sunnudaginn 4 júní hélt GSS fyrsta mótið í Norðurlandamótaröðinni 2023 þar sem krakkar, byrjendur og vanir, fengu að spreyta sig í golf keppni. Keppendur frá Sauðárkróki, Akureyri, og Dalvík mættu í skálann eldsnemma á Sunnudegi og þrátt fyrir kulda og vind, stóðu sig eins og hetjur og skelltu í sig pylsum og gosi þegar hringurinn var búinn.

Í byrjendaflokki voru 6 strákar, Guðmundur Þór Emilsson, Nói Róbertsson, Daníel Smári Kristjánsson, Aðalgeir Ingi Ægisson, Viggó Björgvinsson, og Jóhann Jakob Helgason sem stóðu sig allir einstaklega vel og fengu einn pakka af golfkúlum hver í verðlaun.

Byrjendaflokkur stráka

Í 12 ára og yngri flokki stráka var hörð samkeppni, en í 3. sæti voru þeir Karl Goðdal og Brynjar Morgan jafnir á 49 höggum, í 2. sæti var Barri Björgvinsson á 46 höggum, og í fyrsta sæti var Kristófer Áki Aðalsteinsson á 45 höggum. Stelpu megin var hún Nína Júlía í 1. sæti á 75 höggum og Nína Morgan í 2. sæti á 77 höggum. Frábær frammistaða hjá þessu ungu krökkum!

Barri, Kristófer Áki, Karl Goðdal, og Brynjar Morgan að taka við verðlaunum
Nína Morgan og Nína Júlía að taka við verðlaunum

Krakkarnir spreyttu sig einnig í vipp keppni eftir hringinn. Í 12 ára og yngri flokknum sigraði hann Kristófer Áki með 10 stig og í byrjendaflokknum tók hann Guðmundur Þór sigurinn með 1 stig. Einnig voru veitt nándarverðlaun á 3 og 6 holu en þau tóku Jóhann Jakob sem var 2,89m frá holu og Daníel Smári sem var 4,78m frá holu.

Sigurvegar í vipp keppni, Kristófer Áki og Guðmundur Þór
Siguvegarar nándarverðlaunanna, Daníel Smári og Jóhann Jakob

13-14 ára kepptu bæði í höggleik og punktakeppni með forgjöf. Það var mikil spenna í höggleiknum hjá strákunum en þar var Ágúst Már Þorvaldsson í 3. sæti á 86 höggum, Egill Örn Jónsson í 2. sæti á 84 höggum og svo Arnar Freyr Viðarsson í 1. sæti á 83 höggum. Punktakeppnina vann Patrekur Máni með 45 punkta. Í 2. sæti var Egill Örn með 43 punkta og í 3. sæti var Óskar Pálmi einnig með 43 punkta.

Egill Örn, Arnar Freyr, og Ágúst Már að taka við verðlaunum

Bryndís Eva Ágústsdóttir tók 1. sæti í höggleiknum hjá stelpunum á aðeins 82 höggum. Í 2. sæti var Dagbjört Sísí Einarsdóttir á 87 höggum og í 3. sæti var hún Björk Hannesdóttir á 97 höggum. Punktakeppnina tók Gígja Rós Bjarnadóttir með heila 51 punkta. Í 2. sæti var Birta Rán Víðisdóttir með 40 punkta og rétt á eftir henni í 3. sæti var Dagbjört Sísí með 39 punkta.

Björk Hannesdóttir, Bryndís Eva, og Dagbjört Sísí að taka á móti verðlaunum
Dabjört Sísí og Gígja Rós að taka á móti verðlaunum

Eins og yngri krakkarnir þá spreyttu 13-14 ára krakkarnir sig líka í vipp keppni. Sigurvegarinn var Egill Örn með 13 stig. Nándaverðlaunin á 3 holu tók Dagbjört Sísí sem var 1,24m frá og nándaverðlaunin á 6 holu tók Birta Rán sem var 4,16m frá holu.

Siguvegarinn í vipp keppninni, Egill Örn
Dagbjört Sísí, næst holu á 3 holu

15-18 ára aldursflokkurinn kláraði daginn hjá okkur og spiluðu öll 18 holur með glæsibrag þrátt fyrir versnandi veður. Þau kepptu einnig í bæði höggleik og punktakeppni með forgjöf. Hjá strákunum varð Ólafur Kristinn Sveinsson í 3. sæti á 83 höggum, rétt á eftir Hafsteini Thor Guðmundssyni sem kom í 2. sæti á 82 höggum. Fyrsta sætið tók hann Valur Snær Gupmundsson á 73 höggum. Punktakeppnina tók hann Markús Máni Gröndal á 35 punkta og Valur Snær og Hafsteinn Thor fylgdu honum sterkt á eftir með 34 punkta og 33 punkta. Vipp keppnina tók Ragnar Orri Jónsson með 20 heil stig.

Hafsteinn Thor, Valur Snær, og Ólafur Kristinn að taka á móti verðlaunum
Valur Snær, Markús Máni, og Hafsteinn Thor að taka á móti verðlaunum
Ragnar Orri, sigurvegari í vipp keppninni

Hörð var baráttan hjá 15-18 kvenna. Höggleikurinn vannst á einu höggi en Kristín Lind Arnþórsdóttir tók fyrsta sætið á 82 höggum og Anna Karen Hjartardóttir fylgdi henni fast á eftir í öðru sæti á 83 höggum. Una Karen Guðmundsdóttir tók 3 sætið á 88 höggum en vann punktakeppnina með 33 punkta. Kristín Lind tók 2. sætið einnig með 33 punkta og Anna Karen var í 3. sæti með 31 punkt.

Una Karen, Kristín Lind, og Anna Karen að taka við verðlaunum í höggleik
Kristín Lind, Una Karen, og Anna Karen að taka á móti verðlaunum fyrir punktakeppni

Við viljum óska öllum sigurvegurum innilega til hamingju og þakka bæði keppendum og foreldrum fyrir að mæta og gera daginn skemmtilegann og fjörugan. Einnig viljum við þakka Barna- og unglinganefndinni sem stóð vaktina og grillaði ofan í alla keppendur að loknum hring og fyrir að skipuleggja vel heppnaðan golf dag. Það eru 3 mót eftir í Norðurlandsmótaröðinni og verður næsta mót 2. júlí á Dalvík, næsta eftir það 26 júlí á Ólafsfirði og loka mótið er 15. ágúst á Akureyri. Fleiri myndir frá mótinu má finna í myndasafninu okkar.

Categories: Börn og unglingar

Fyrstu Mót Sumarsins 2023!

Við í GSS ætlum að hefja golfsumarið snemma með Opna KS mótinu á laugardaginn 3. júní. Keppt verður með Texas Scramble fyrirkomulagi 18 holur þar sem tveir eru saman í liði. Báðir slá högg og velja eftir hvert högg hvort boltinn er leikbolti. Æsi skemmtilegt mót og tilvalinn leið til að koma sér aftur í gírinn eftir langt frí! Skráningarfrestur er til 19:00 2 júní.

Eins og vant er þá byrjar Norðurlandamótaröðin hérna á Króknum og Nýprent mótið verður haldið 4 júní. Keppt er alveg frá byrjendaflokkum upp í 15-18 ára og geta krakkarnir skráð sig þar til 3 júní kl. 11:00. Skellt verður svo í grill og læti fyrir keppendur og aðstandendur í lok móts.

Innanfélagsmótin eru líka að fara að hefjast og verða fyrstu mótin í bæði Hard Wok mótaröðinni og KKS mótaröðinni í næstu viku. Hard Wok Háforgjafamótin eru 9 holu mót á þriðjudögum sem eru ætluð þeim með meira en 30 í forgjöf og alveg tilvalin mót fyrir byrjendur sem vilja stíga sín fyrstu skref í golfmótum. Mótið er opið fyrir alla, líka þá sem eru með lægri forgjöf en 30 nema þeir geta ekki unnið til verðlauna, og því geta Hard Wok mótin verið tilvalin fyrir metnaðasöm ungmenni sem vilja æfa sig. Eins og áður er mótagjald fyrir hvert mót 1.000kr og verða þau 10 talsins í sumar. 1. sætinu er veitt verðlaun í formi gjafabréfs frá Hard Wok.

KKS mótin eru 18 holu mót sem verða einnig 10 talsins yfir sumarið og alltaf á miðvikudögum. Mótið er punktakeppni með forgjöf og keppt í tveim flokkum; karla og kvenna. Í hverju móti er veitt verðlaun frá Kjötvinnslu KS fyrir sigurvegarana í hvor flokknum. Einnig eru veitt verðlaun í lok mótaraðarinnar fyrir bestan samanlagðan árangur með forgjöf í hvor flokknum og þá eru talin 6 bestu mót keppanda. Svo eru veitt ein verðlaun fyrir besta samanlagðan árangur í punktaleik án forgjafar óháð kyni. Ef það er ekki nóg þá er líka eitthvað sem við köllum ‘Besta Hola’ þar sem keppendur geta skráð 1-4 holur eftir hvert mót sem ‘besta hola.’ Markmiðið er að búa til hin ‘fullkomna hring’ eða ‘besta hring’ og þarf því að taka þátt í allavega 5 mótum til að ná að skrá 18 bestu holur. Mótagjald fyrir þessi mót er 2.000kr og yfirleitt hægt að skrá sig þar til 14:30 á miðvikudögum.

Allar upplýsingar um fleiri mótarhöld í sumar má finna á heimasíðunni undir ‘Mótahald’ og einnig á Golfbox. Upplýsingar er líka hægt að nálgast upp í skála.

Categories: Óflokkað