Fyrstu Mót Sumarsins 2023!

Við í GSS ætlum að hefja golfsumarið snemma með Opna KS mótinu á laugardaginn 3. júní. Keppt verður með Texas Scramble fyrirkomulagi 18 holur þar sem tveir eru saman í liði. Báðir slá högg og velja eftir hvert högg hvort boltinn er leikbolti. Æsi skemmtilegt mót og tilvalinn leið til að koma sér aftur í gírinn eftir langt frí! Skráningarfrestur er til 19:00 2 júní.

Eins og vant er þá byrjar Norðurlandamótaröðin hérna á Króknum og Nýprent mótið verður haldið 4 júní. Keppt er alveg frá byrjendaflokkum upp í 15-18 ára og geta krakkarnir skráð sig þar til 3 júní kl. 11:00. Skellt verður svo í grill og læti fyrir keppendur og aðstandendur í lok móts.

Innanfélagsmótin eru líka að fara að hefjast og verða fyrstu mótin í bæði Hard Wok mótaröðinni og KKS mótaröðinni í næstu viku. Hard Wok Háforgjafamótin eru 9 holu mót á þriðjudögum sem eru ætluð þeim með meira en 30 í forgjöf og alveg tilvalin mót fyrir byrjendur sem vilja stíga sín fyrstu skref í golfmótum. Mótið er opið fyrir alla, líka þá sem eru með lægri forgjöf en 30 nema þeir geta ekki unnið til verðlauna, og því geta Hard Wok mótin verið tilvalin fyrir metnaðasöm ungmenni sem vilja æfa sig. Eins og áður er mótagjald fyrir hvert mót 1.000kr og verða þau 10 talsins í sumar. 1. sætinu er veitt verðlaun í formi gjafabréfs frá Hard Wok.

KKS mótin eru 18 holu mót sem verða einnig 10 talsins yfir sumarið og alltaf á miðvikudögum. Mótið er punktakeppni með forgjöf og keppt í tveim flokkum; karla og kvenna. Í hverju móti er veitt verðlaun frá Kjötvinnslu KS fyrir sigurvegarana í hvor flokknum. Einnig eru veitt verðlaun í lok mótaraðarinnar fyrir bestan samanlagðan árangur með forgjöf í hvor flokknum og þá eru talin 6 bestu mót keppanda. Svo eru veitt ein verðlaun fyrir besta samanlagðan árangur í punktaleik án forgjafar óháð kyni. Ef það er ekki nóg þá er líka eitthvað sem við köllum ‘Besta Hola’ þar sem keppendur geta skráð 1-4 holur eftir hvert mót sem ‘besta hola.’ Markmiðið er að búa til hin ‘fullkomna hring’ eða ‘besta hring’ og þarf því að taka þátt í allavega 5 mótum til að ná að skrá 18 bestu holur. Mótagjald fyrir þessi mót er 2.000kr og yfirleitt hægt að skrá sig þar til 14:30 á miðvikudögum.

Allar upplýsingar um fleiri mótarhöld í sumar má finna á heimasíðunni undir ‘Mótahald’ og einnig á Golfbox. Upplýsingar er líka hægt að nálgast upp í skála.

Categories: Óflokkað