Golfhermir

Trackman leiðbeiningar

Trackman þróast stöðugt og býður upp á ótal möguleika varðandi spil, æfingar og leiki.  Í Trackman er fjöldi valla (185 vellir í sept 2022) og að meðaltali bætast við þrír vellir á mánuði. Meðal vallanna eru nokkrir íslenskir vellir og um 50 heimsklassa keppnisvellir sem bestu atvinnumennirnir keppa á (Tour venues).

Bóka tíma og fyrstu skref. Byrja þarf á því að bóka tíma í Golfbox. Til að komast inn á Borgarflöt þarf svo að slá inn talnakóða.  Ljós í Trackman herbergi eru kveikt með rofum við hlið rafmagnstöflu við inngang.  Ekki þarf að kveikja á tölvu og það á heldur ekki að slökkva á henni.  Kveikið hins vegar á tölvuskjá og skjávarpa í upphafi og slökkvið á þeim í lokin.

Leiðbeiningarnar hér að neðan miðast við að spila eigi völl í Trackman.

Vellir/courses:  Farið í Courses og veljið völl úr miklu úrvali golfvalla. Smellið á völlinn sem þið viljið spila og smellið svo á Select. Úrvalið má sjá hér: https://www.trackman.com/golf/simulator/courses

Leikmenn/Players: Tvær aðferðir eru við að skrá leikmenn.  Í fyrsta lagi er hægt að vera með Trackman reikning og nota app til að skrá sig inn.  Trackman heldur utan um tölfræði og reiknar sérstaka Trackman forgjöf.  Ef maður skráir sig inn með appi skannar maður QR kóða efst í hægra horni á skjánum. Í öðru lagi er hægt að skrá inn leikmenn með Add Player. Þá er hægt að skrá nafn, forgjöf, kyn og teig.  Trackman heldur hins vegar ekki utan um forgjöf eða tölfræði þeirra sem skrá sig inn þannig.

Leikstilllingar /Game Settings: Hér er hægt að stilla leikformat s.s. höggleik (sjálfgefið), holukeppni, o.s.frv. Einnig er hægt að stilla hvort pútt eigi að vera sjálfvirk (auto) eða handvirk (manual). Hægt er að velja hversu erfiðar holustaðsetningar eru og vindstyrk.

Í leiknum sjálfum:  Efst á skjánum sést hver á að slá og númer hvað höggið er. Neðst til vinstri sést fjarlægð til holu og hæðarmismunur.  Einnig fást upplýsingar um hvort maður fær 100% högg eða minna (power). T.d. getur verið að maður fái 85% ef boltinn er í djúpum röffi. Neðarlega til hægri er yfirlitsmynd af brautinni sem sýnir boltastaðsetningu, ýmsar fjarlægðir, vallarmörk (hvítar línur) o.fl.  

Afsláttarkort fást hjá gjaldkera GSS: gjaldkeri@gss.is

Þetta skýrist svo allt þegar maður byrjar að spila 😊   

Góða skemmtun!
Stjórn GSS

Trackman – ný uppfærsla september 2022

Categories: Golfhermir

Meistaramót barna

Meistaramót GSS í barnaflokki fór fram dagana 11. – 13. júlí. Slæmt veður var fyrsta daginn en svo kom blíðan. Verðlaunaafhending var á lokahófi mótsins mánudaginn 18. júlí.

Úrslitin þetta árið voru:

9 ára og yngri stelpur:1.sætið- Rannveig Kara 2.sætið- Nína Morgan
9 ára og yngri, strákar:1.sætið- Ólafur Bjarni 2.sætið- Karl Goðdal 3.sætið- Friðrik Elmar

10-13 ára stelpur: 1.sætið- Gígja Rós 2.sætið- Emilía Ragnheiður 3.sætið- Nína Júlía
10-13 ára strákar:1.sætið- Guðni Bent 2.sætið- Brynjar Morgan 3.sætið- Gunnar Atli

Þjálfarar skelltu í vippkeppni á lokahófinu þar sem verðlaunað var fyrir 1. og 2.sætið. Í 1.sæti var Rannveig Kara en í 2.sæti var hann Gunnar Atli og fengu þau Titleist derhúfu í verðlaun.

Keppendum og fjölskyldum þeirra var boðið í pizzuveislu frá Hard Wok.

Barna- og unglinganefnd þakkar öllum fyrir skemmtilegt mót og frábært lokahóf mótsins. Sérstakar þakkir til Atla Freys þjálfara, Unu Karenar, Tómasar Bjarka og Dagbjartar Sísíar aðstoðarþjálfara.

Barna- og unglinganefnd GSS

Frá lokahófi meistaramóts barna 2022

Categories: Óflokkað

Meistaramót GSS 2022

Meistaramót GSS fór fram dagana 12.-16. júlí. Tæplega 60 þátttakendur tóku þátt í mismunandi flokkum. Keppt var í Meistaraflokki karla og kvenna, 1. flokki karla og kvenna, 2 flokki karla, háforgjafarflokki, öldungaflokki og barnaflokkum. Veður var mjög mismunandi í mótinu, fyrsti dagurinn var afleitur, það var hjá börnum og öldungum, annars hið besta veður.

Anna Karen Hjartardóttir vann öruggan sigur í Meistaraflokki kvenna. Í Meistaraflokki karla vann Arnar Geir Hjartarson einnig öruggan sigur. Þau systkinin eru því klúbbmeistarar GSS árið 2022.

Í fyrsta flokki kvenna sigraði Dagbjört Sísí Einarsdóttir. Í fyrsta flokki karla sigraði Tómas Bjarki Guðmundsson. Í öðrum flokki karla sigraði Róbert Óttarsson. Í öldungaflokki sigraði Guðrún Björg Guðmundsdóttir. Í háforgjafarflokki sigraði Auður Haraldsdóttir.

Nánari upplýsingar um verðlaunasæti eru á GolfBox.

Á laugardeginum var lokahóf í Ljósheimum þar sem verðlaun voru afhent og slegið á létta strengi.

Arnar Geir og Anna Karen
Meistarar GSS 2022
Tilþrif á teig.
Mynd: Hjalti Árnason

Categories: Félagsstarf Mótanefnd