Höfundur: Stjórn GSS

Ýmsar reglur

Ánægulegt er að sjá hve margir eru farnir að spila á vellinum. Nýliðar læra golfreglurnar smátt og smátt eftir því sem þeir spila oftar. Gott er að spila og læra af reyndari kylfingum, t.d. í mótum.
Nú hafa vonandi allir félagsmenn lært það að enginn á að spila á vellinum nema vera með skráðan rástíma.

GSS er aðildarfélag UMSS og við störfum eftir siðareglum UMSS. Reglurnar er að finna í handbók GSS á heimasíðu okkar og einnig á heimasíðu UMSS. Segja má að kjarninn í reglunum sé virðing, heilindi, sanngirni og réttlæti.

Að auki kappkosta félagsmenn GSS að umgangast völlinn af virðingu. Það þýðir m.a. að laga boltaför á flötum, fara ekki með kerrur inn á flatir og reyndar ekki á milli glompu og flatar. Við skilum torfum út á braut aftur á stað sinn og við rökum glompu (bönker) eftir að við höfum slegið þaðan. Rusl á heima í ruslatunnum og brotin tí í litlum kössum á teig.

Halda þarf uppi spilahraða. Í stuttu máli þarf hvert holl að gæta þess að halda í við næsta holl. Hleypið fram úr ef holl á eftir ykkur spilar hraðar og laust pláss er fyrir framan ykkur. Spilið af teig við hæfi. Staðsetjið kerru milli flatar og næsta teigs til að flýta fyrir eftir að leik brautar er lokið. Gangið rösklega af flöt og skráið skor við næsta teig. Takið bolta upp ef fjöldi högga er kominn 5 yfir par brautar.

Segja má að allar ofangreindar reglur kristallist í einni reglu: berðu virðingu fyrir náunganum, íþróttinni og vellinum.

Góða skemmtun á Hlíðarendavelli 

Categories: Óflokkað

50 ára afmælismót GSS

50 ára afmælismót GSS fór fram laugardaginn 27. júní. Þátttaka var frábær, 70 manns. Kylfingar glímdu við stífan vind úr ríkjandi átt framan af degi en svo lægði. Nýir teigar voru vígðir á fimmtu braut, sem gæti orðið uppáhaldsbraut margra við breytinguna. Þá voru ný glæsileg teigskilti tekin í notkun.  Keppendur voru ánægðir með völlinn, sérstaklega flatirnar sem eru í toppstandi. Vinningar voru glæsilegir í 6 verðlaunaflokkum og að auki voru nándarverðlaun og fjöldi útdráttarvinninga. Fyrirtæki sem styrktu mótið með vinningum voru TA Sport Travel, Úrval Útsýn, Jómfrúin, VÍS og Esja gæðafæði. Úrslit eru á síðu golfsambandsins golf.is en þess má geta að grípa þurfti til bráðabana í tveimur flokkum til að knýja fram úrslit.  Við verðlaunaafhendingu var boðið upp á glæsilega afmælisköku frá bakaríinu.  Allir skemmtu sér vel og fóru glaðir heim. 

Hluti keppenda á afmælismóti GSS. Alls voru 70 þátttakendur.
Afmæliskaka frá Sauðárkróksbakarí.

Categories: Félagsstarf Mótanefnd

Íslandsmót 15 ára og yngri

Íslandsmót golfklúbba 15 ára og yngri fór fram dagana 25-27. Júní á Garðavelli Akranesi. Golfklúbbur Skagafjarðar átti þar flotta fulltrúa. Drengjasveitin endaði í 13. sæti. Sveitina skipuðu þeir Alexander Franz Þórðarson, Axel Arnarsson, Bjartmar Dagur Þórðarson, Hallur Atli Helgason og Tómas Bjarki Guðmundsson. Liðsstjóri var Atli Freyr Rafnsson. Stúlknasveitin var sameiginleg með Golfklúbbnum Hamri Dalvík og enduðu þær í 5. sæti. Sveitina skipuðu Anna Karen Hjartardóttir, Dagbjört Sísí Einarsdóttir, Rebekka Helena B. Róbertsdóttir, Una Karen Guðmundsdóttir og Magnea Ósk Bjarnadóttir GHD. Liðsstjóri var Bjarni Jóhann Valdimarsson GHD. Krakkarnir sýndu leikgleði og prúðmennsku á vellinum og voru klúbbum sínum til mikils sóma.

Stúlknasveit GSS ásamt liðsstjóra.
Drengjasveit GSS ásamt Atla þjálfara og liðsstjóra

Categories: Börn og unglingar