GSS í 3.sæti í sveitakeppni karla í 3.deild
Golfklúbbur Sauðárkróks keppti dagana 7-9 ágúst í sveitakeppni Golfsambands Íslands í 3.deild á Bárarvelli við Grundarfjörð. Í liði GSS voru að þessu sinni þeir Arnar Geir Hjartarson, Elvar Ingi Hjartarson, Hákon Ingi Rafnsson, Jóhann Örn Bjarkason og Jón Þorsteinn Hjartarson. Liðsstjóri var Hjörtur Geirmundsson.
Keppt er í 5 deildum í karlaflokki og eru 8 lið í hverri deild alla jafna. Í 3.deild er keppt með holukeppnisfyrirkomulagi þannig að tveir úr hvoru liði spila saman svokallaðan fjórmenning og síðan spila 2 sinn hvorn tvímenningsleikinn. Keppt er í tveimur 4. liða riðlum. Þetta eru því 3 leikir í hverri umferð.
1. umferðin var leikin á föstudagsmorgni og þá lék GSS við Golklúbb Hellu(GHR). Elvar Ingi og Jóhann Örn spiluðu fjórmenning og sigruðu 5/4. Í tvímenningsleikjunum tapaði Arnar Geir 1/0 og Jón Þorsteinn tapaði 2/1. Eftir hádegið á föstudeginum var leikið á móti Golfklúbbnum Hamri á Dalvík (GHD). Elvar Ingi og Jóhann Örn spiluðu fjórmenning og sigruðu 2/0. Í tvímenningi tapaði Arnar Geir 2/1 og Jón Þorsteinn 4/2. Það var því ljóst að ef GSS ætlaði að lenda í 2.sæti riðilsins þá þyrfti að sigra í öllum leikjum á móti heimamönnnum í Golfklúbbnum Vestarr á laugardagsmorgninum. Fjórmenninginn spiluðu þeir Jóhann Örn og Jón Þorsteinn og var sá leikur mjög spennandi en að lokum höfðu þeir sigur 1/0. Tvímenningsleikirnir unnust nokkuð örugglega. Arnar Geir sigraði 3/2 og Elvar Ingi sigraði 4/3. Eftir þann leik var ljóst að GSS myndi lenda í öðru sæti riðilsins og spila eftir hádegið við efsta sætið í hinum riðlinum sem var Golfklúbbur Akureyrar (GA). Sama liðsskipan var í þeim leik og um hörkuviðureign varð að ræða þó svo á endanum töpuðust allir leikirnir. Jóhann Örn og Jón Þorsteinn töpuðu með minnsta mögulega mun 1/0 og einnig Elvar Ingi í sínum leik 1/0 en Arnar Geir tapaði 3/2. Það var því ljóst eftir þann leik að GA myndi leika í 2.deild á næsta ári. Í hinum undanúrslitaleiknum léku Dalvík ( GHD) og Húsavík ( GH) og þar sigraði GHD í tveimur viðureignum en GH í einni. Lokaleikur GSS var því á móti GH á sunnudagsmorgninum. Í fjórmenningi léku þeir Arnar Geir og Elvar Ingi og sigruðu mjög örugglega 7/6 í sínum leik. Hákon Ingi Rafnsson lék síðan fyrsta leik sinn í sveitakeppni karla, 14 ára gamall, og tapaði 6/5. Jóhann Örn sigraði síðan 2/1 í sínum leik og 3.sætið staðreynd hjá GSS sem er alveg ljómandi árangur.
Þetta var mjög skemmtileg keppni í alla staði og vel að hlutum staðið hjá heimamönnum á Grundarfirði. Allt skipulag til fyrirmyndar og völlurinn alveg stórskemmtilegur og óhætt að mæla með honum við alla golfara.
Meðfylgjandi er mynd af sveit GSS.