Flokkur: Félagsstarf

Tilnefningar GSS til íþróttamanns og liðs Skagafjarðar 2019

Golfklúbbur Skagafjarðar tilnefndi Arnar Geir Hjartarson sem íþróttamann ársins og kvennalið GSS sem lið ársins 2019. Valið er í höndum 10 manna nefndar UMSS. Valið verður kynnt í athöfninni „Íþróttamaður ársins 2019“ sem fram fer í Ljósheimum föstudaginn 27. desember kl 20:00. Jafnframt munu ungir efnilegir íþróttamenn innan UMSS fá hvatningarverðlaun. Félagar GSS eru hvattir til að mæta á athöfnina sem er öllum opin. 

Arnar Geir Hjartarson

Arnar Geir varði klúbbmeistaratitil sinn á árlegu fjögurra daga Meistaramóti golfkúbbsins og er án efa sterkasti kylfingur Skagafjarðar um þessar mundir.  Hann hafði mikla yfirburði á innanfélagsmóti GSS, sigraði þar með og án forgjafar.  Arnar Geir setti einnig vallarmet á Hlíðarendavelli í sumar þegar hann spilaði völlinn á 67 höggum eða 5 höggum undir pari vallarins.  Vallarmetið setti hann á miðvikudagsmóti Kaffi Króks þann 7. ágúst.  Forgjöfin lækkaði úr 2,2 í 0,6 á árinu sem staðfestir framfarir í kjölfar þrotlausra æfinga.  Arnar Geir var í karlasveit GSS og sigraði allar sínar viðureignir á íslandsmóti golfklúbba 3. deild í Grindavík.
Arnar Geir er á sínu þriðja ári í háskóla við Missouri Valley College. Þar komst hann inn á skólastyrk vegna golfiðkunar og splar með golfliði skólans.  Í vor sigraði lið hans deildarkeppni háskóla í miðríkjum Bandaríkjanna og komst liðið þar með á lokamót NAIA háskólamótaraðarinnar í Bandaríkjunum.  Lokamótið var haldið í Arizona og og mættu 30 lið til leiks.  Liðið endaði þar í 13. sæti á landsvísu. Þetta var besti árangur skólans sem hafði fram að þessu aldrei náð að komast í lokakeppni.

Þetta var í fyrsta skipti sem lið frá skólanum vinnur deildarmeistaratitil í golfi.  Arnar Geir endaði golfárið í Bandaríkjunum, eftir gott sumar í Skagafirði, með því að verða holukeppnimeistari golfliðs háskólans.  Þar að auki var hann í haust kosinn fyrirliði skólaliðsins og spilaði í öllum keppnum haustsins með liðinu.
Arnar Geir er ungum kylfingum fyrirmynd utan vallar sem innan.

Kvennasveit GSS

Kvennasveit GSS hélt sæti sínu í efstu deild golfklúbba á árinu.  Leikið var á Íslandsmóti golfklúbba í 1.deild í júlí og endaði sveit GSS í 7. sæti. Leikið var á tveimur völlum, hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og Golfklúbbnum Oddi. Allar sterkustu sveitir landsins tóku þátt, en tvær deildir eru í íslandsmóti golfklúbba í kvennaflokki. Næsta ár verður því þriðja árið í röð sem GSS leikur í 1.deild kvenna.  Sveitina skipuðu:

Anna Karen Hjartardóttir, Árný Lilja Árnadóttir, Dagbjört Hermundsdóttir, Hildur Heba Einarsdóttir, Sigríður Elín Þórðardóttir, Sólborg Hermundsdóttir, Telma Ösp Einarsdóttir

Liðsstjóri: Árný Lilja Árnadóttir

Aðalfundur GSS 2019

Aðalfundur GSS 2019 var haldinn í golfskálanum á Hlíðarenda Sauðárkróki mánudaginn 25. nóvember.

Stjórn GSS árið 2020 verður óbreytt frá 2019:  Kristján Bjarni Halldórsson formaður, Halldór Halldórsson varaformaður, Kristján Eggert Jónasson gjaldkeri, Dagbjört Rós Hermundsdóttir ritari, Guðmundur Ágúst Guðmundsson (formaður vallarnefndar), Andri Þór Árnason (formaður mótanefndar) og Helga Jónína Guðmundsdóttir  (formaður unglinganefndar). Vallarstjóri er Guðmundur Þór Árnason. 

Á aðalfundinum var samþykkt lagabreyting um breytt nafn klúbbsins og heitir hann nú Golfklúbbur Skagafjarðar en hét áður Golfklúbbur Sauðárkróks. Áfram verður notuð þrístöfunin GSS. 

Í ársskýrslu 2019 kemur fram að mikil gróska er í starfinu, ekki síst í barna og unglingastarfi. 

Félagsmenn eru nú 167 talsins en voru 154 í lok árs 2018.  Nýliðanámskeið hafa notið vinsælda og eru nýir félagar ætíð velkomnir. Nefndir GSS 2020 eru vel mannaðar og var skemmtinefnd klúbbsins endurvakin.

GSS gegnir mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu og heilsueflandi samfélagi í Skagafirði. 

Hlíðarendavöllur er stolt félagsmanna, 29 hektarar að stærð innan vallarmarka og þar með stærsta íþróttasvæði Skagafjarðar.  Völlurinn er að jafnaði opinn yfir 150 daga á ári en golftímabilið hefur lengst með hlýnandi veðurfari. 

Starf GSS er allt árið um kring og færist í inniaðstöðu í Borgarflöt yfir köldustu mánuðina. Þar er m.a. golfhermir og púttaðstaða.  

Vallarnefndin hefur lagt fram metnaðarfulla áætlun um viðhald og framkvæmdir á vellinum til næstu ára.  Það þarf talsverða vinnu við að halda vellinum í fremstu röð 9 holu golfvalla á Íslandi. 

Í ársreikningi kemur fram að rekstrarniðurstaða 2019 var neikvæð um 2,2 milljónir eða álíka og árið áður.  Lengt tímabil og aukin starfsemi felur í sér aukinn kostnað. Stjórn GSS vinnur að leiðum til að bæta rekstrarniðurstöðu komandi ára. 

Golfklúbburinn fékk góða gjöf frá dugmiklum eldri félagsmönnum sem reistu og gáfu klúbbnum framtíðaraðstöðu fyrir golfbíl.  Þá var samþykkt að GSS taki við eignum og skuldum hermafélagsins. 

Sigríður Elín Þórðardóttir hlaut háttvísiverðlaun GSÍ. Verðlaunin fær hún fyrir góða framkomu innan sem utan vallar, góða umgengni á vellinum og háttvísi í keppni. Hún spilaði m.a. með kvennaliði GSS í sumar í efstu deild á Íslandsmóti golfklúbba. 

 Í lok fundar var Stefán Pedersen kjörinn heiðursfélagi klúbbsins en hann hefur verið drjúgur við ljósmyndun í þágu klúbbsins í gegnum tíðina auk þess að sýna starfseminni lifandi áhuga og vera nánast hluti af vellinum.

Stjórn Golfklúbbs Skagafjarðar horfir björtum augum til ársins 2020 en þá verður klúbburinn 50 ára.  Framundan eru ýmsir viðburðir í tilefni afmælisins, svo sem afmælisferðir, útgáfa afmælisrits og afmælismót. 

Categories: Félagsstarf