Flokkur: Félagsstarf

Aðalfundur GSS 2019

Aðalfundur GSS 2019 var haldinn í golfskálanum á Hlíðarenda Sauðárkróki mánudaginn 25. nóvember.

Stjórn GSS árið 2020 verður óbreytt frá 2019:  Kristján Bjarni Halldórsson formaður, Halldór Halldórsson varaformaður, Kristján Eggert Jónasson gjaldkeri, Dagbjört Rós Hermundsdóttir ritari, Guðmundur Ágúst Guðmundsson (formaður vallarnefndar), Andri Þór Árnason (formaður mótanefndar) og Helga Jónína Guðmundsdóttir  (formaður unglinganefndar). Vallarstjóri er Guðmundur Þór Árnason. 

Á aðalfundinum var samþykkt lagabreyting um breytt nafn klúbbsins og heitir hann nú Golfklúbbur Skagafjarðar en hét áður Golfklúbbur Sauðárkróks. Áfram verður notuð þrístöfunin GSS. 

Í ársskýrslu 2019 kemur fram að mikil gróska er í starfinu, ekki síst í barna og unglingastarfi. 

Félagsmenn eru nú 167 talsins en voru 154 í lok árs 2018.  Nýliðanámskeið hafa notið vinsælda og eru nýir félagar ætíð velkomnir. Nefndir GSS 2020 eru vel mannaðar og var skemmtinefnd klúbbsins endurvakin.

GSS gegnir mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu og heilsueflandi samfélagi í Skagafirði. 

Hlíðarendavöllur er stolt félagsmanna, 29 hektarar að stærð innan vallarmarka og þar með stærsta íþróttasvæði Skagafjarðar.  Völlurinn er að jafnaði opinn yfir 150 daga á ári en golftímabilið hefur lengst með hlýnandi veðurfari. 

Starf GSS er allt árið um kring og færist í inniaðstöðu í Borgarflöt yfir köldustu mánuðina. Þar er m.a. golfhermir og púttaðstaða.  

Vallarnefndin hefur lagt fram metnaðarfulla áætlun um viðhald og framkvæmdir á vellinum til næstu ára.  Það þarf talsverða vinnu við að halda vellinum í fremstu röð 9 holu golfvalla á Íslandi. 

Í ársreikningi kemur fram að rekstrarniðurstaða 2019 var neikvæð um 2,2 milljónir eða álíka og árið áður.  Lengt tímabil og aukin starfsemi felur í sér aukinn kostnað. Stjórn GSS vinnur að leiðum til að bæta rekstrarniðurstöðu komandi ára. 

Golfklúbburinn fékk góða gjöf frá dugmiklum eldri félagsmönnum sem reistu og gáfu klúbbnum framtíðaraðstöðu fyrir golfbíl.  Þá var samþykkt að GSS taki við eignum og skuldum hermafélagsins. 

Sigríður Elín Þórðardóttir hlaut háttvísiverðlaun GSÍ. Verðlaunin fær hún fyrir góða framkomu innan sem utan vallar, góða umgengni á vellinum og háttvísi í keppni. Hún spilaði m.a. með kvennaliði GSS í sumar í efstu deild á Íslandsmóti golfklúbba. 

 Í lok fundar var Stefán Pedersen kjörinn heiðursfélagi klúbbsins en hann hefur verið drjúgur við ljósmyndun í þágu klúbbsins í gegnum tíðina auk þess að sýna starfseminni lifandi áhuga og vera nánast hluti af vellinum.

Stjórn Golfklúbbs Skagafjarðar horfir björtum augum til ársins 2020 en þá verður klúbburinn 50 ára.  Framundan eru ýmsir viðburðir í tilefni afmælisins, svo sem afmælisferðir, útgáfa afmælisrits og afmælismót. 

Categories: Félagsstarf

Opna kvennamót GSS

Opna kvennamót GSS fór fram á Hlíðarendavelli laugardaginn 29. júní. Þátttakendur voru 55 konur úr ýmsum golfklúbbum. Sigurvegari var Ingibjörg Ólöf Guðjónsdóttir (GSS) með 43 punkta. Í öðru sæti var Anna Karen Hjartardóttir (GSS) með 43 punkta og í þriðja sæti var Hildur Heba Einarsdóttir (GSS) með 41 punkt. Engin fór tómhent heim, þökk sé frábærum stuðningi fjölmargra fyrirtækja. Það er gaman að geta tekið á móti svona flottum hópi, það er góð kynning á Hlíðarendavelli og úrvals kynning fyrir Skagafjörð.

Categories: Félagsstarf

Punktar úr starfinu

Nokkrir punktar úr starfinu:

  • Skálinn er að jafnaði opinn virka daga 10 – 18 og um helgar 10 – 16 (lengur ef það er mót).
  • Mikil gróska er í barna- og unglingastarfi klúbbsins.  Golfskólinn er mánudaga til fimmtudaga. 11 ára og yngri eru kl 10:30 – 12:00.  12 ára og eldri eru kl 13:30 – 15:30.  Sumartím er kl. 8:30 – 10:00. Arnar Geir og Atli Freyr eru aðalþjálfarar og standa sig með miklum sóma. Helga Jónína (helgajg@simnet.is) er formaður unglinganefndar sem hefur í mörg horn að líta.  
  • Það er gaman að sjá hve góð þátttaka er í nýliðanámskeiðinu.  Við fögnum nýju fólki og öðrum sem snúa aftur eftir pásu.  Árný Lilja og Arnar Geir eru frábærir leiðbeinendur.  Í framhaldi af nýliðanámskeiði verður lokahóf og fleira skemmtilegt s.s. vanur/óvanur og gullteigamót.  Kynningar- og nýliðanefndin heldur utan um nýliðastarfið. Formaður er Dagbjört Rós (dagbjort79@live.com)
  • Mótin eru farin að rúlla. Unglinganefndin hélt fyrsta föstudagsmót sumarsins þann 7. júní. Opna KS mótið var haldið 8. júní í sól og smá strekkingi.  Sigurvegarar voru Arnar Geir og Ingvi Þór.  Mót sumarsins má sjá á golf.is.  Andri Þór (andri@byggdastofnun.is) er formaður mótanefndar.
  • Vallarnefnd, vallarstjóri og dómarar klúbbsins hafa komist að niðurstöðu um merkingar vítasvæða.  Vallarstarfsmenn eru búnir að merkja.  Vítasvæði eru merkt með gulum eða rauðum hælum.  Formaður vallarnefndar er Guðmundur Ágúst (gummiag@simnet.is )
  • Dagana 9. – 16. júní verður GSS með léttan útdráttarleik fyrir félagsmenn: Dregið verður úr skráðum rástímum (á golf(.)is) og sá heppni fær glaðning. Til gamans gert en einnig til að hvetja fólk til að fara á völlinn og skrá rástíma. Skráning rástíma sýnir tillitssemi við aðra. Það ætti enginn að fara á völlinn nema með skráðan rástíma. Skráning er allra hagur. Vertu með í leiknum og kannski dettur þú í lukkupottinn.

Categories: Félagsstarf