Category: Fréttir

Sveitakeppni drengja 15 ára og yngri

Sveit drengja 15 ára og yngri 2012 ásamt Thomasi þjálfara

Golfklúbbur Sauðárkróks sendi sveit vaskra drengja til keppni í Sveitakeppni Golfsambands Íslands í flokki 15 ára og yngri sem haldin var á Jaðarsvelli dagana 17.-19.ágúst s.l. Þeir sem skipuðu sveitina voru þeir Atli Freyr Rafnsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hákon Ingi Rafnsson, Hlynur Freyr Einarsson, Jónas Már Kristjánsson og Pálmi Þórsson.  20 lið voru mætt til leiks í þessa keppni.  Fyrirkomulagið er þannig að fyrsta daginn er leikinn höggleikur sem ræður því í hvaða riðli sveitin keppir næstu tvo daga. Í hverri umferð eru 4 kylfingar sem spila en 2 hvíla.  Úrslitin úr höggleiknum voru þannig að Elvar Ingi lék á 78 höggum, Hlynur Freyr á 80 höggum og Jónas Már á 86 höggum og það voru þeirra skor sem töldu. Atli Freyr spilaði einnig í höggleiknum en hans skor taldi ekki, en í höggleiknum þá telja þrjú bestu skorin hjá hverri sveit. Eftir þennan hluta keppninnar vorum við í 8-9 sæti keppninnar en 4. maður sveitarinnar sem var jöfn okkur var á betra skori og því varð niðurstaðan sú að sveitin lenti í 9.sæti og því í C riðli, en 4 sveitir eru í hverjum riðli. Á laugardegi og sunnudegi var síðan fyrirkomulagið holukeppni þar sem leiknir eru 3 leikir í hverri umferð þ.e. tveir leikmenn úr hverri sveit spila svokallaðan fjórmenning og hinir tveir spila sinn hvorn tvímenningsleikinn.  Byrjað var á að spila við Nesklúbbinn og þar unnu Hlynur Freyr og Pálmi sinn leik í fjórmenningsleiknum en báðir tvímenningsleikirnir hjá Elvari Inga og Jónasi Má töpuðust.  Seinni leikurinn á laugardeginum var á móti Golfklúbbi Hveragerðis og þar sigrðaði Elvar Ingi í sínum leik en Atli Freyr tapaði í hinum tvímenningsleiknum, þá tapaðist einnig fjórmenningsleikurinn hjá Hlyni Frey og Hákoni Inga.  Báðir leikirnir þennan dag töpuðust því með einum vinningi gegn tveimur. Á sunnudeginum voru einnig spilaðar tvær umferðir. Byrjað var á því að spila við nágranna okkar á Dalvík og Ólafsfirði sem voru með sameiginlega sveit.  Þessi leikur var klárlega sá besti af okkar hálfu í keppninni enda þekkjast kylfingar þessara sveita mjög vel.  Jónas Már og Atli Freyr spiluðu fjórmenninginn, en Elvar Ingi og Hlynur Freyr spiluðu sinn hvorn tvímenningsleikinn.  Allar viðureignir í þessum leik voru mjög spennandi en að lokum var landað sigri í öllum leikjunum. Seinni leikurinn á sunnudeginum var gegn b sveit Golfklúbbs Akureyrar.  Þar léku í fjórmenningi þeir Atli Freyr og Pálmi, en í tvímenningnum léku þeir Hlynur Freyr og Elvar Ingi.  Í þessum leik var Hlynur Freyr sá eini sem landaði sigri en hinir leikirnir töpuðust.  Sveit GSS varð því í 14. sæti í þessari keppni.  Það var virkilega gaman að fylgjast með þessari keppni og allir keppendur voru að spila mjög vel og það er mikil sprenging í unglingagolfi um land allt.

Hægt er að sjá myndir úr keppninni á gss.blog.is

Categories: Fréttir

Friðriksmótið um helgina

Næstu helgi verður haldið minningarmót um Friðrik Jens Friðriksson héraðslækni,

Friðrik Jens Friðriksson. Ljósmyndari Kristján C. Magnússon

sem lést á síðastliðnu ári. Friðrik var formaður Golfklúbbsins um árabil og heiðursfélagi í GSS. Vegleg verðlaun verða í mótinu, m.a. flottar og rándýrar golfkylfur. Má sjá hluta þeirra í golfskála. Skráning fer fram á www.golf.is

Categories: Fréttir

Strákarnir í roki og rigningu

Gæðum heimsins er greinilega misskipt. Hér norðan heiða þrá menn rigningu en líklega hafa keppendur GSS í sveitakeppni karla fengið nóg af henni í Hveragerði um helgina.

Hér á eftir er stutt lýsing á sveitakeppninni þetta árið.

Golfklúbbur Sauðárkróks sendi karlasveit til keppni í Sveitakeppni GSÍ 4. deild sem haldin var á Gufudalsvelli í Hveragerði dagana 10.-12.ágúst s.l.  Fyrir klúbbinn fóru þeir Arnar Geir Hjartarson, Brynjar Örn Guðmundsson, Ingvi Þór Óskarsson, Jóhann Örn Bjarkason, Oddur Valsson og Thomas Olsen.  Í 4. deildinni er spiluð holukeppni og 3 leikir í hverri umferð. Einn fjórmenningur og tveir tvímenningsleikir. Í deildinni voru 8 lið og leikið var í tveimur riðlum. Sveit GSS var í B riðli ásamt Golfklúbbi Selfoss, Golfklúbbnum Geysi og Golfklúbbnum Tudda.  Allar veðurspár rættust því miður og mikið rok og vatnsveður var allan föstudaginn. Fyrri leikurinn á föstudeginum var á móti Golfklúbbnum Geysi.  Ingvi Þór og Brynjar Örn spiluðu fjórmenninginn en Jóhann Örn og Arnar Geir spiluðu tvímenningsleikina. Jóhann Örn sigraði í sínum leik 4/3 en Arnar Geir tapaði 3/2. Öllu meiri spenna var í fjórmenningsleiknum sem tapaðist á 20.holu eða 2. holu í bráðabana. Byrjunin ekki alveg eins og  vonast var eftir.  Seinni leikurinn á föstudeginum var gegn Golfklúbbnum Tudda. Í fjórmenningnum þar léku þeir Arnar Geir og Ingvi Þór en í tvímenningsleikjunum spiluðu þeir Jóhann Örn og Oddur. Úrslitin í þessum leik urðu þau að Arnar Geir og Ingvi Þór sigruðu 5/3 og Oddur sigraði einnig örugglega 5/3 í sínum leik. Öllu meiri spenna var í leiknum hjá Jóhanni og veðrið var orðið afleitt á þessum tíma og völlurinn gjörsamlega óleikhæfur.  Leik var hætt eftir 15 holu og þá var jafnt.  Ekki slotaði veðrinu um nóttina og leik var aflýst á laugardeginum.  Á sunnudeginum var komið aðeins skaplegra veður þó að ennþá rigndi en vindurinn hafði þó minnkað. Það var því tekin ákvörðun um að ljúka keppni en til að það væri hægt þá voru leikirnir styttir úr 18 holur og niður í 9 holur. Fyrst þurfti að byrja á því að klára leikinn frá föstudeginum.  Jóhann Örn sýndi mikla hörku og landaði sigri í þessum leik á 3. holu í bráðabana eða þeirri 21. Það unnust því allir leikirnir í 2. umferðinni. Þá tók við leikur á móti Golfklúbbi Selfoss.  Í fjórmenningnum þar léku þeir Arnar Geir og Ingvi Þór en í tvímenningsleikjunum spiluðu þeir Jóhann Örn og Oddur. Úrslitin í þessum leik urðu þau að Arnar Geir og Ingvi Þór sigruðu 1/0. Jóhann Örn tapaði 2/0. Mikil spenna var í leiknum hjá Oddi en hann tapaðist á 2. holu í bráðabana.  Eftir þessa niðurstöðu var ljóst að fallbarátta blasti við og spila þurfti við Golfklúbb Bolungarvíkur um hvort liðið félli í 5.deild. Í fjórmenningnum þar léku þeir Arnar Geir og Ingvi Þór en í tvímenningsleikjunum spiluðu þeir Jóhann Örn og Brynjar Örn. Úrslitin í þessum leik urðu þau að Arnar Geir og Ingvi Þór sigruðu 1/0, Jóhann Örn sigraði 3/2 í sínum leik en Brynjar Örn tapaði 1/0. Næsta verkefni var því að spila við Golfklúbbinn Hamar á Dalvík um 5.sætið í deildinni. Í fjórmenningnum spiluðu Thomas og Oddur, en í tvímenningsleikjunum þeir Brynjar Örn og Jóhann Örn. Ekki kom til þess að Jóhann Örn spilaði því mótherji hans gaf leikinn. Thomas og Oddur töpuðu 2/1, Brynjar Örn tapaði 2/0. Niðurstaðan varð því 6.sæti þetta árið.  Keppninnar verður fyrst og fremst minnst fyrir hið gríðarlega vatnsveður sem keppendur lentu í sem gerði þeim erfitt fyrir, en það fer bara í reynslubankann eins og annað mótlæti. Hins vegar er bara hægt að bretta upp ermar og koma enn sterkari til leiks á næsta ári.

Categories: Fréttir