Góður rekstur GSS

Aðalfundur Golfklúbbs Sauðárkróks var haldinn að Hlíðarenda 24. Nóvember. Þar kom fram að rekstur klúbbins hefur verið ágætur á síðasta ári, en klúbburinn skilaði ríflega 3 milljónum í hagnað. Rekstrartekjur námu tæplega 22 milljónum króna og gjöld voru um 19 milljónir.

Frá aðalfundi GSS 2011

Langtímaskuldir klúbbsins eru ríflega 3 milljónir króna. Hins vegar blasir við að nauðsynlegt verður að endurnýja sláttuvél á næstunni og er áætlaður kostnaður um eða yfir 10 milljónir króna og því mikilvægt að greiða niður skuldir til að mæta framtíðarútgjöldum.

Á síðasta ári var unnið að ýmsum framkvæmdum, m.a. var bætt við vatnssöfnunartank á golfsvæðið, settar upp öryggismyndavélar og byggð upp ný flöt á 9. braut. Félagsmenn lögðu á sig mikla sjálfboðavinnu til að framkvæmdir yrðu sem ódýrastar og hafa tugir sjálfboðaliða lagt mikið á sig fyrir klúbbinn á árinu.

Allir stjórnarmeðlimir gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, nema Bjarni Jónasson form.mótanefndar og mun stjórn klúbbsins næsta starfsár því vera þannig skipuð:  Pétur Friðjónsson formaður, Unnar Ingvarsson varaformaður, Dagbjört Rós Hermundardóttir ritari, Ragnheiður Matthíasdóttir gjaldkeri, Björn Sigurðsson, Hjörtur Geirmundsson og Sigríður Elín Þórðardóttir.

Bjarna eru þökkuð verkin á liðnu ári og Sigríður Elín er boðin velkomin til starfa í stjórn. Hægt verður að nálgast ársreikninginn á www.gss.is .

Categories: Óflokkað