Karlasveit GSS í 2.sæti á íslandsmóti golfklúbba 3.deild

Karlasveit GSS 2019

Karlasveit GSS lék á íslandsmóti golfklúbba 3.deild sem haldið var á Húsatóftarvelli í Grindavík 16.-18.ágúst s.l. Sveitina skipuðu þeir Arnar Geir Hjartarson, Brynjar Örn Guðmundsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hákon Ingi Rafnsson, Ingvi Þór Óskarsson og Jóhann Örn Bjarkason. Liðsstjóri var Hjörtur Geirmundsson. Fyrirkomulag keppninnar er holukeppni þannig að spilaður er einn fjórmenningur þ.e. tveir saman í liði og slá annað hvert högg. Síðan eru spilaðir tveir tvímenningsleikir þ.e. maður á mann, í hverri umferð.

Á föstudeginum var byrjað á því að spila við Golfklúbb Húsavíkur og vannst sá leikur með 2 vinningum gegn 1. Arnar Geir sigraði 5/3 og Jóhann Örn sigraði 5/4 í sínum tvímenningsleikjum. Fjórmenningur með Ingva Þór og Brynjar Örn tapaði 2/1. Seinni leikur föstudags var gegn Golfklúbbi Borgarness og vannst hann einnig með 2 vinningum gegn 1. Fjórmenningur með Brynjar Örn og Elvar Inga sigraði 1/0, Arnar Geir sigraði 2/0 og Jóhann Örn tapaði 4/3. Að loknum þessum leikjum lá fyrir að GSS yrði í efri hluta deildarinnar, en 8 lið eru í deildinni.

Á laugardeginum var fyrst leikið við heimamenn í Grindavík og tapaðist sá leikur með 2 vinningum gegn 1. Arnar Geir sigraði í sínum leik 8/6, Hákon Ingi spilaði einnig tvímenningsleik og tapaði 3/2. Fjórmenningur með Ingva Þór og Elvar Inga tapaði 1/0. Þá lá það fyrir að seinni leikur á laugardeginum myndi vera við Golfklúbb Fjallabyggðar og réði sá leikur úrslitum um hvort liðið myndi spila til úrslita í deildinni. Skemmst er frá því að segja að strákarnir spiluðu glimrandi vel í þeim leik og sigruðu alla leiki, þ.e. 3 vinningar gegn engum. Fjórmenningur með Brynjar Örn og Ingva sigraði 5/4, Jóhann Örn sigraði 2/1 og Arnar Geir sigraði einnig 2/1. Það var því ljóst við GSS var á leið í úrslitaleikinn á sunnudeginum.

Eins og fyrr segir þá var úrslitaleikurinn á sunnudeginum og þar var aftur leikið við Golfklúbb Húsavíkur. Að þessu sinni voru Húsvíkingar sterkari og sigruðu með 2 vinningum gegn 1 og leika því í 2.deild að ári. Arnar Geir sigraði í sínum leik 2/0, Jóhann Örn tapaði 3/2 og Fjórmenningur Ingva Þórs og Brynjars Arnar tapaði 2/0 í miklum baráttuleik. Golfklúbbur Fjallabyggðar endaði síðan í 3.sæti.

Heilt yfir þá spiluðu strákarnir mjög vel þessa helgi við mjög erfiðar aðstæður, en vindur var mjög mikill alla helgina og völlurinn þurr og harður eftir því. Vissulega hefði verið gaman að landa sigri í deildinni og spila í 2. deild að ári en eins og máltækið segir „Gott silfur er gulli betra!“.

Categories: Afreksstarf