Flokkur: Afreksstarf

Arnar Geir og félagar sigruðu í Mississippi

9. og 10. mars s.l. léku Arnar Geir Hjartarson og félagar hans í golfliði Missouri Valley College á fyrsta móti sínu í NAIA mótaröðinni í háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Spilaðar voru 36 holur á Canebrake Country Club  golfvellinum í Mississippi. 14 lið mættu til leiks og milli 70 og 80 golfarar voru mættir til leiks. 5 leikmenn eru í hverjum liði og einnig spila nokkrir án liðs í einstaklingskeppninni. Liðið sigraði á 578 höggum samtals eða 2 yfir pari í heildina og voru 9 höggum á undan næsta liði. Arnar Geir endaði síðan í 18. sæti í einstaklingskeppninni á 148 höggum eða 4 höggum yfir pari samtals. Þegar þetta er skrifað þá er búið að fresta allri keppni í háskólagolfinu í Bandaríkjunum og því eru allar líkur á því að þetta hafi verið síðasta mót Arnars og félaga hans í golfliði Missouri Valley College. Hægt er að sjá heildarúrslit í mótinu hér: http://results.golfstat.com/public/leaderboards/gsnav.cfm?pg=team&tid=18540&fbclid=IwAR3hg3Hb4L6_khPvTcvHXcUWmvd86nl9WxzV4p2Zlv0Od1l9mJq6W4fY3-4

Categories: Afreksstarf

Tilnefningar GSS til íþróttamanns og liðs Skagafjarðar 2019

Golfklúbbur Skagafjarðar tilnefndi Arnar Geir Hjartarson sem íþróttamann ársins og kvennalið GSS sem lið ársins 2019. Valið er í höndum 10 manna nefndar UMSS. Valið verður kynnt í athöfninni „Íþróttamaður ársins 2019“ sem fram fer í Ljósheimum föstudaginn 27. desember kl 20:00. Jafnframt munu ungir efnilegir íþróttamenn innan UMSS fá hvatningarverðlaun. Félagar GSS eru hvattir til að mæta á athöfnina sem er öllum opin. 

Arnar Geir Hjartarson

Arnar Geir varði klúbbmeistaratitil sinn á árlegu fjögurra daga Meistaramóti golfkúbbsins og er án efa sterkasti kylfingur Skagafjarðar um þessar mundir.  Hann hafði mikla yfirburði á innanfélagsmóti GSS, sigraði þar með og án forgjafar.  Arnar Geir setti einnig vallarmet á Hlíðarendavelli í sumar þegar hann spilaði völlinn á 67 höggum eða 5 höggum undir pari vallarins.  Vallarmetið setti hann á miðvikudagsmóti Kaffi Króks þann 7. ágúst.  Forgjöfin lækkaði úr 2,2 í 0,6 á árinu sem staðfestir framfarir í kjölfar þrotlausra æfinga.  Arnar Geir var í karlasveit GSS og sigraði allar sínar viðureignir á íslandsmóti golfklúbba 3. deild í Grindavík.
Arnar Geir er á sínu þriðja ári í háskóla við Missouri Valley College. Þar komst hann inn á skólastyrk vegna golfiðkunar og splar með golfliði skólans.  Í vor sigraði lið hans deildarkeppni háskóla í miðríkjum Bandaríkjanna og komst liðið þar með á lokamót NAIA háskólamótaraðarinnar í Bandaríkjunum.  Lokamótið var haldið í Arizona og og mættu 30 lið til leiks.  Liðið endaði þar í 13. sæti á landsvísu. Þetta var besti árangur skólans sem hafði fram að þessu aldrei náð að komast í lokakeppni.

Þetta var í fyrsta skipti sem lið frá skólanum vinnur deildarmeistaratitil í golfi.  Arnar Geir endaði golfárið í Bandaríkjunum, eftir gott sumar í Skagafirði, með því að verða holukeppnimeistari golfliðs háskólans.  Þar að auki var hann í haust kosinn fyrirliði skólaliðsins og spilaði í öllum keppnum haustsins með liðinu.
Arnar Geir er ungum kylfingum fyrirmynd utan vallar sem innan.

Kvennasveit GSS

Kvennasveit GSS hélt sæti sínu í efstu deild golfklúbba á árinu.  Leikið var á Íslandsmóti golfklúbba í 1.deild í júlí og endaði sveit GSS í 7. sæti. Leikið var á tveimur völlum, hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og Golfklúbbnum Oddi. Allar sterkustu sveitir landsins tóku þátt, en tvær deildir eru í íslandsmóti golfklúbba í kvennaflokki. Næsta ár verður því þriðja árið í röð sem GSS leikur í 1.deild kvenna.  Sveitina skipuðu:

Anna Karen Hjartardóttir, Árný Lilja Árnadóttir, Dagbjört Hermundsdóttir, Hildur Heba Einarsdóttir, Sigríður Elín Þórðardóttir, Sólborg Hermundsdóttir, Telma Ösp Einarsdóttir

Liðsstjóri: Árný Lilja Árnadóttir

Karlasveit GSS í 2.sæti á íslandsmóti golfklúbba 3.deild

Karlasveit GSS 2019

Karlasveit GSS lék á íslandsmóti golfklúbba 3.deild sem haldið var á Húsatóftarvelli í Grindavík 16.-18.ágúst s.l. Sveitina skipuðu þeir Arnar Geir Hjartarson, Brynjar Örn Guðmundsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hákon Ingi Rafnsson, Ingvi Þór Óskarsson og Jóhann Örn Bjarkason. Liðsstjóri var Hjörtur Geirmundsson. Fyrirkomulag keppninnar er holukeppni þannig að spilaður er einn fjórmenningur þ.e. tveir saman í liði og slá annað hvert högg. Síðan eru spilaðir tveir tvímenningsleikir þ.e. maður á mann, í hverri umferð.

Á föstudeginum var byrjað á því að spila við Golfklúbb Húsavíkur og vannst sá leikur með 2 vinningum gegn 1. Arnar Geir sigraði 5/3 og Jóhann Örn sigraði 5/4 í sínum tvímenningsleikjum. Fjórmenningur með Ingva Þór og Brynjar Örn tapaði 2/1. Seinni leikur föstudags var gegn Golfklúbbi Borgarness og vannst hann einnig með 2 vinningum gegn 1. Fjórmenningur með Brynjar Örn og Elvar Inga sigraði 1/0, Arnar Geir sigraði 2/0 og Jóhann Örn tapaði 4/3. Að loknum þessum leikjum lá fyrir að GSS yrði í efri hluta deildarinnar, en 8 lið eru í deildinni.

Á laugardeginum var fyrst leikið við heimamenn í Grindavík og tapaðist sá leikur með 2 vinningum gegn 1. Arnar Geir sigraði í sínum leik 8/6, Hákon Ingi spilaði einnig tvímenningsleik og tapaði 3/2. Fjórmenningur með Ingva Þór og Elvar Inga tapaði 1/0. Þá lá það fyrir að seinni leikur á laugardeginum myndi vera við Golfklúbb Fjallabyggðar og réði sá leikur úrslitum um hvort liðið myndi spila til úrslita í deildinni. Skemmst er frá því að segja að strákarnir spiluðu glimrandi vel í þeim leik og sigruðu alla leiki, þ.e. 3 vinningar gegn engum. Fjórmenningur með Brynjar Örn og Ingva sigraði 5/4, Jóhann Örn sigraði 2/1 og Arnar Geir sigraði einnig 2/1. Það var því ljóst við GSS var á leið í úrslitaleikinn á sunnudeginum.

Eins og fyrr segir þá var úrslitaleikurinn á sunnudeginum og þar var aftur leikið við Golfklúbb Húsavíkur. Að þessu sinni voru Húsvíkingar sterkari og sigruðu með 2 vinningum gegn 1 og leika því í 2.deild að ári. Arnar Geir sigraði í sínum leik 2/0, Jóhann Örn tapaði 3/2 og Fjórmenningur Ingva Þórs og Brynjars Arnar tapaði 2/0 í miklum baráttuleik. Golfklúbbur Fjallabyggðar endaði síðan í 3.sæti.

Heilt yfir þá spiluðu strákarnir mjög vel þessa helgi við mjög erfiðar aðstæður, en vindur var mjög mikill alla helgina og völlurinn þurr og harður eftir því. Vissulega hefði verið gaman að landa sigri í deildinni og spila í 2. deild að ári en eins og máltækið segir „Gott silfur er gulli betra!“.

Categories: Afreksstarf