Hákon Ingi Rafnsson spilaði frábært golf í lokamóti Íslandsbankamótaraðarinnar
Lokamót Íslandsbankamótaraðar barna og unglinga fór um fram um síðustu helgi á golfvelli Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG ) Leirdalsvelli. Keppt var í flokkum frá 14 ára og yngri og upp í 21 árs aldur. Golfklúbbur Sauðárkróks átti þrjá þátttakendur á þessu móti. Veður setti svip sitt á mótið því alla jafna eru spilaðar 36 holur í flestum flokkum nema í tveimur elstu, þar eru spilaðar 54 holur. Veður var hins vegar með þeim hætti á laugardeginum að keppni var aflýst og mótið því klárað á sunnudeginum. Hákon Ingi Rafnsson sem lék í flokki 15-16 ára spilaði frábært golf á sunnudeginum og lék á 71 höggi eða pari vallarins sem skilaði honum í 3.sæti í þessum gríðarsterka flokki. Sannarlega góður árangur hjá honum þar sem hann lék 14 holur á pari, fékk tvo fugla og tvo skolla og niðurstaðan því par vallarins.
Hákon er lengst til vinstri á myndinni