Tilnefningar GSS til íþróttamanns og liðs Skagafjarðar 2019

Golfklúbbur Skagafjarðar tilnefndi Arnar Geir Hjartarson sem íþróttamann ársins og kvennalið GSS sem lið ársins 2019. Valið er í höndum 10 manna nefndar UMSS. Valið verður kynnt í athöfninni „Íþróttamaður ársins 2019“ sem fram fer í Ljósheimum föstudaginn 27. desember kl 20:00. Jafnframt munu ungir efnilegir íþróttamenn innan UMSS fá hvatningarverðlaun. Félagar GSS eru hvattir til að mæta á athöfnina sem er öllum opin. 

Arnar Geir Hjartarson

Arnar Geir varði klúbbmeistaratitil sinn á árlegu fjögurra daga Meistaramóti golfkúbbsins og er án efa sterkasti kylfingur Skagafjarðar um þessar mundir.  Hann hafði mikla yfirburði á innanfélagsmóti GSS, sigraði þar með og án forgjafar.  Arnar Geir setti einnig vallarmet á Hlíðarendavelli í sumar þegar hann spilaði völlinn á 67 höggum eða 5 höggum undir pari vallarins.  Vallarmetið setti hann á miðvikudagsmóti Kaffi Króks þann 7. ágúst.  Forgjöfin lækkaði úr 2,2 í 0,6 á árinu sem staðfestir framfarir í kjölfar þrotlausra æfinga.  Arnar Geir var í karlasveit GSS og sigraði allar sínar viðureignir á íslandsmóti golfklúbba 3. deild í Grindavík.
Arnar Geir er á sínu þriðja ári í háskóla við Missouri Valley College. Þar komst hann inn á skólastyrk vegna golfiðkunar og splar með golfliði skólans.  Í vor sigraði lið hans deildarkeppni háskóla í miðríkjum Bandaríkjanna og komst liðið þar með á lokamót NAIA háskólamótaraðarinnar í Bandaríkjunum.  Lokamótið var haldið í Arizona og og mættu 30 lið til leiks.  Liðið endaði þar í 13. sæti á landsvísu. Þetta var besti árangur skólans sem hafði fram að þessu aldrei náð að komast í lokakeppni.

Þetta var í fyrsta skipti sem lið frá skólanum vinnur deildarmeistaratitil í golfi.  Arnar Geir endaði golfárið í Bandaríkjunum, eftir gott sumar í Skagafirði, með því að verða holukeppnimeistari golfliðs háskólans.  Þar að auki var hann í haust kosinn fyrirliði skólaliðsins og spilaði í öllum keppnum haustsins með liðinu.
Arnar Geir er ungum kylfingum fyrirmynd utan vallar sem innan.

Kvennasveit GSS

Kvennasveit GSS hélt sæti sínu í efstu deild golfklúbba á árinu.  Leikið var á Íslandsmóti golfklúbba í 1.deild í júlí og endaði sveit GSS í 7. sæti. Leikið var á tveimur völlum, hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og Golfklúbbnum Oddi. Allar sterkustu sveitir landsins tóku þátt, en tvær deildir eru í íslandsmóti golfklúbba í kvennaflokki. Næsta ár verður því þriðja árið í röð sem GSS leikur í 1.deild kvenna.  Sveitina skipuðu:

Anna Karen Hjartardóttir, Árný Lilja Árnadóttir, Dagbjört Hermundsdóttir, Hildur Heba Einarsdóttir, Sigríður Elín Þórðardóttir, Sólborg Hermundsdóttir, Telma Ösp Einarsdóttir

Liðsstjóri: Árný Lilja Árnadóttir