Úrslit í Jónsmessumóti

Jónsmessugleði GSS fór fram með pompi og prakt á Hlíðarendavelli á að kveldi sumarsólstöðudags þann 21. júní 2013 (sem voru nákvæmlega kl. 05.04 í ár að staðartíma),  þremur dögum fyrir Jónsmessu sem er fæðingarhátíð Jóhannesar skírara. Ekki er vitað til að sá Jói hafi verið skýrari í golfi en t.d. Gestur Sigurjónsson, sem bar sigur úr býtum  og hreppti til varðveislu hinn eftirsótta Jónsmessupela. Fær hann nafn sitt letrað á gripinn en verður að skila honum að ári átöppuðum. Gestur þurfti ásamt öðrum keppendum að leysa nokkrar snúnar þrautir auk þess að koma kúlunni í holur sem voru ævintýralega staðsettar. T.d. að slá teighögg með pútter á þriðju, með örvhentri kylfu á fimmtu og með bundið fyrir augu á áttundu. Þessar þrautir leysti Gestur snilldarlega. Ágreiningur var vakinn upp frammi fyrir dómara í mótslok um verðlaunaafhendinguna þar sem tilkynnt hafði verið  var í byrjun að enginn gestur gæti hreppt pelann góða. Dómari blés á þetta andóf og vitnaði í hið fornkveðna að glöggt sé Gests golfið.

Categories: Óflokkað