Author: webnotandi

Arnar Geir og félagar sigruðu í Mississippi

9. og 10. mars s.l. léku Arnar Geir Hjartarson og félagar hans í golfliði Missouri Valley College á fyrsta móti sínu í NAIA mótaröðinni í háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Spilaðar voru 36 holur á Canebrake Country Club  golfvellinum í Mississippi. 14 lið mættu til leiks og milli 70 og 80 golfarar voru mættir til leiks. 5 leikmenn eru í hverjum liði og einnig spila nokkrir án liðs í einstaklingskeppninni. Liðið sigraði á 578 höggum samtals eða 2 yfir pari í heildina og voru 9 höggum á undan næsta liði. Arnar Geir endaði síðan í 18. sæti í einstaklingskeppninni á 148 höggum eða 4 höggum yfir pari samtals. Þegar þetta er skrifað þá er búið að fresta allri keppni í háskólagolfinu í Bandaríkjunum og því eru allar líkur á því að þetta hafi verið síðasta mót Arnars og félaga hans í golfliði Missouri Valley College. Hægt er að sjá heildarúrslit í mótinu hér: http://results.golfstat.com/public/leaderboards/gsnav.cfm?pg=team&tid=18540&fbclid=IwAR3hg3Hb4L6_khPvTcvHXcUWmvd86nl9WxzV4p2Zlv0Od1l9mJq6W4fY3-4

Categories: Afreksstarf

Aðalfundur GSS 2019

Aðalfundur GSS 2019 var haldinn í golfskálanum á Hlíðarenda Sauðárkróki mánudaginn 25. nóvember.

Stjórn GSS árið 2020 verður óbreytt frá 2019:  Kristján Bjarni Halldórsson formaður, Halldór Halldórsson varaformaður, Kristján Eggert Jónasson gjaldkeri, Dagbjört Rós Hermundsdóttir ritari, Guðmundur Ágúst Guðmundsson (formaður vallarnefndar), Andri Þór Árnason (formaður mótanefndar) og Helga Jónína Guðmundsdóttir  (formaður unglinganefndar). Vallarstjóri er Guðmundur Þór Árnason. 

Á aðalfundinum var samþykkt lagabreyting um breytt nafn klúbbsins og heitir hann nú Golfklúbbur Skagafjarðar en hét áður Golfklúbbur Sauðárkróks. Áfram verður notuð þrístöfunin GSS. 

Í ársskýrslu 2019 kemur fram að mikil gróska er í starfinu, ekki síst í barna og unglingastarfi. 

Félagsmenn eru nú 167 talsins en voru 154 í lok árs 2018.  Nýliðanámskeið hafa notið vinsælda og eru nýir félagar ætíð velkomnir. Nefndir GSS 2020 eru vel mannaðar og var skemmtinefnd klúbbsins endurvakin.

GSS gegnir mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu og heilsueflandi samfélagi í Skagafirði. 

Hlíðarendavöllur er stolt félagsmanna, 29 hektarar að stærð innan vallarmarka og þar með stærsta íþróttasvæði Skagafjarðar.  Völlurinn er að jafnaði opinn yfir 150 daga á ári en golftímabilið hefur lengst með hlýnandi veðurfari. 

Starf GSS er allt árið um kring og færist í inniaðstöðu í Borgarflöt yfir köldustu mánuðina. Þar er m.a. golfhermir og púttaðstaða.  

Vallarnefndin hefur lagt fram metnaðarfulla áætlun um viðhald og framkvæmdir á vellinum til næstu ára.  Það þarf talsverða vinnu við að halda vellinum í fremstu röð 9 holu golfvalla á Íslandi. 

Í ársreikningi kemur fram að rekstrarniðurstaða 2019 var neikvæð um 2,2 milljónir eða álíka og árið áður.  Lengt tímabil og aukin starfsemi felur í sér aukinn kostnað. Stjórn GSS vinnur að leiðum til að bæta rekstrarniðurstöðu komandi ára. 

Golfklúbburinn fékk góða gjöf frá dugmiklum eldri félagsmönnum sem reistu og gáfu klúbbnum framtíðaraðstöðu fyrir golfbíl.  Þá var samþykkt að GSS taki við eignum og skuldum hermafélagsins. 

Sigríður Elín Þórðardóttir hlaut háttvísiverðlaun GSÍ. Verðlaunin fær hún fyrir góða framkomu innan sem utan vallar, góða umgengni á vellinum og háttvísi í keppni. Hún spilaði m.a. með kvennaliði GSS í sumar í efstu deild á Íslandsmóti golfklúbba. 

 Í lok fundar var Stefán Pedersen kjörinn heiðursfélagi klúbbsins en hann hefur verið drjúgur við ljósmyndun í þágu klúbbsins í gegnum tíðina auk þess að sýna starfseminni lifandi áhuga og vera nánast hluti af vellinum.

Stjórn Golfklúbbs Skagafjarðar horfir björtum augum til ársins 2020 en þá verður klúbburinn 50 ára.  Framundan eru ýmsir viðburðir í tilefni afmælisins, svo sem afmælisferðir, útgáfa afmælisrits og afmælismót. 

Categories: Félagsstarf

Holukeppnismeistari og lokamót sumarsins

Núna þegar farið er að hausta er ekki úr vegi að fara yfir starfið undanfarnar vikur.

Úrslitin í holukeppni réðust í lok ágúst og var það Rafn Ingi Rafnsson sem er holukeppnismeistari GSS árið 2019. Hann hafði betur í spennandi leik á móti Telmu Ösp Einarsdóttur. Holukeppnin er afar skemmtilegt fyrirkomulag þar sem allir hafa jafna möguleika þar sem full forgjöf er tekin inn í spilið.

Opna Advania var haldið 1. september.  Skemmtilegt mót þar sem fyrirkomulagið var betri bolti.   Sigurvegarar voru þau  Telma Ösp Einarsdóttir og Hjörtur Geirmundsson. 

Advania er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa staðið með okkur að mótahaldi í sumar.  Við í GSS erum afar þakklátt þeim fyrirtækjum sem styrkja okkur með einum eða öðrum hætti.

Barna- og unglingastarfið hefur verið öflugt í sumar.  

Farið var í vel heppnaða skemmtiferð til Akureyrar þann 6. september þar sem börn og foreldrar skelltu sér á skauta, í sund og svo var Pizzuhlaðborð. 
Almenn ánægja var með ferðina og gaman þegar farið er í svona ferðir til að efla andann.

Síðasta mótið í Norðurlandsmótaröðinni var þann 15. september.  GSS átti samtals 9 keppendur á lokamótinu á Akureyri en í mótaröðinni í heild í sumar áttum við 18 þátttakendur.
Keppendur GSS röðuðu sér í verðlaunasæti á lokamótinu:  Telma Ösp var efst í flokki 18-21 árs stúlkna, Hildur Heba Einarsdóttir var í öðru sæti í flokki 15 – 17 ára stúlkna, Anna Karen Hjartardóttir var í öðru sæti í flokki stúlkna 14 ára og yngri. 

Heildarkeppnin kallast Norðurlandsmeistarinn.  Þá er tekin saman besti samanlagður árangur á 3 mótum í sumar, reiknuð stig fyrir hvert sæti. Klúbburinn eignaðist tvo Norðurlandsmeistara þetta árið. Telma Ösp Einarsdóttir varð stigameistari í flokki 18-21 árs stúlka og Anna Karen Hjartardóttir í flokki 14 ára og yngri þar sem hún deildi stigameistaratitlinum með Köru Líf Antonsdóttur úr GA. Hildur Heba Einarsdóttir í 2 sæti í stúlknaflokknum 15-17 ára og Una Karen Guðmundsdóttir var í 3. sæti í sama stúlknaflokki, þ.e. 14 ára og yngri.   Í ár voru það bara stelpurnar okkar sem náðu á pall í heildar mótaröðinni.  Strákarnir voru samt nokkrir nálægt því .

Categories: Óflokkað