Mánuður: júní 2013

Opna IcelandairGolfers

Þá er komið að árlegu móti í samstarfi við IcelandairGolfers. Fyrirkomulag er höggleikur með og án forgjafar. Hámarks leikforgjöf karla er 24 og kvenna 28.
Veitt verða verðlaun fyrir 3 efstu sætin í hvorum flokki, sami aðili getur ekki unnið til verðlauna í báðum flokkum. Nándarverðlaun á 6/15 og næst holu í öðru höggi á 9/18.

Verði keppendur jafnir í verðlaunasæti án forgjafar verður háður bráðabani á 9 braut, en þó ekki oftar en einu sinni. Séu keppendur enn jafnir er slegið frá 100 metra hæl og vinnur sá/sú sem er nær holu.

Mótsstjóri Sigríður Elín Þórðardóttir

Categories: Óflokkað

Úrslit í Jónsmessumóti

Jónsmessugleði GSS fór fram með pompi og prakt á Hlíðarendavelli á að kveldi sumarsólstöðudags þann 21. júní 2013 (sem voru nákvæmlega kl. 05.04 í ár að staðartíma),  þremur dögum fyrir Jónsmessu sem er fæðingarhátíð Jóhannesar skírara. Ekki er vitað til að sá Jói hafi verið skýrari í golfi en t.d. Gestur Sigurjónsson, sem bar sigur úr býtum  og hreppti til varðveislu hinn eftirsótta Jónsmessupela. Fær hann nafn sitt letrað á gripinn en verður að skila honum að ári átöppuðum. Gestur þurfti ásamt öðrum keppendum að leysa nokkrar snúnar þrautir auk þess að koma kúlunni í holur sem voru ævintýralega staðsettar. T.d. að slá teighögg með pútter á þriðju, með örvhentri kylfu á fimmtu og með bundið fyrir augu á áttundu. Þessar þrautir leysti Gestur snilldarlega. Ágreiningur var vakinn upp frammi fyrir dómara í mótslok um verðlaunaafhendinguna þar sem tilkynnt hafði verið  var í byrjun að enginn gestur gæti hreppt pelann góða. Dómari blés á þetta andóf og vitnaði í hið fornkveðna að glöggt sé Gests golfið.

Categories: Óflokkað

Nýprent Open, barna og unglingamótið 30.júní n.k.

Mótið hefst kl. 08:00, sunnudaginn 30.júní og verða elstu ræstir út fyrst og yngstu síðast.

Ræst verður í tvennu lagi og verðlaunaafhending verður einnig í tvennu lagi.

Mótið er fyrir alla, byrjendur sem lengra komna.

Mótið er flokkaskipt og kynjaskipt.

Flokkarnir eru þessir:

17-18 ára piltar og stúlkur – 18 holur

15-16 ára drengir og telpur – 18 holur

14-ára og yngri strákar og stelpur – 18 holur

12 ára og yngri strákar og stelpur sem spila 9 holur

Byrjendaflokkur strákar og stelpur spilar 9 holur af sérstaklega styttum  teigum

Opnað hefur verið fyrir skráningu á www.golf.is

Nándarverðlaun verða veitt og vippkeppni í öllum flokkum

Viðurkenning fyrir flesta punkta með forgjöf á 18 holu flokkunum, virk forgjöf er skilyrði.

Mótsgjald er 1.500 kr

Við viljum hvetja alla til að taka þátt í þessu skemmtilega móti og bendum sérstaklega á byrjendaflokkinn.

Þeir sem vilja skrá sig í mótið en hafa ekki aðgang inn á www.golf.is geta sent upplýsingar á hjortur@fjolnet.is eða hringt í síma 8217041

Sérstakur styrktaraðili mótsins nú eins og undafarin ár er Nýprent ehf. sem gefur m.a. út Sjónhornið, Feyki, heldur úti www.feykir.is, ásamt því að útbúa auglýsingar, skilti, bæklinga o.m.fl.

Mótið er hluti af Norðurlandsmótaröð barna og unglinga og er að þessu sinni fyrsta mótið í mótaröðinni á þessu sumri.

Categories: Óflokkað